Gamall evrópulerkiskógur í Finnlandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Gamall evrópulerkiskógur í Finnlandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Annað hvort höldum við áfram á rangri leið og steypum heiminum í enn meiri vanda eða fetum okkur yfir á rétta braut sem er til hagsbóta fyrir líffjölbreytni og loftslag, skapar störf, styrkir efnahaginn og heilsu mannanna. Kostirnir eru augljósir, segir einn æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna. Ef við stöðvum ekki og snúum við skógareyðingu í heiminum náum við ekki markmiðum okkar um loftslagsmál, líffjölbreytni og sjálfbærni.

Inger Andersen er annar aðalritari Sameinuðu þjóðanna en stýrir líka UNEP, umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Hún hélt erindi á vefmálþingi sem fram fór 28. september á vegum UNFF, skógarvettvangs SÞ, og UN DESA, efnahags- og félagsmáladeildar SÞ. Umfjöllunarefnið var miðlægt hlutverk skóga í endurreisninni sem fram undan er þegar kórónuveirufaraldrinum lýkur, Forests at the heart of a green recovery from COVID-19.

Án skóganna náum við ekki loftslagsmarkmiðunum

Í erindi sínu ræddi Inger Andersen um þrjú meginvandamál heimsins á okkar dögum, loftslagsbreytingar, hnignun náttúru og líffjölbreytni og í þriðja lagi mengun og sóun. Þetta þrennt, allt saman afleiðingar ósjálfbærrar neyslu og framleiðslu okkar, grafi nú undan tilveru mannsins á jörðinni og kórónuveirufaraldurinn sé bein afleiðing þessa vanda.

Hún segir á hinn bóginn líka ljóst að faraldurinn gefi ákveðið tækifæri til að byggja upp á ný með grænum lausnum. Við megum alls ekki snúa aftur til fyrra háttalags sem skaði loftslag og náttúru. Viðbrögð við faraldrinum þurfi að hafa grænar tengingar og stjórnvöld um allan heim geti gert margt til að stuðla að grænni uppbyggingu. Í þessum viðbrögðum verði að tala skýrt fyrir heilbrigðum skógum og aukinni útbreiðslu skóglendis. Ef við stöðvum ekki skógareyðingu reynist okkur ómögulegt að ná markmiðum okkar um loftslag, líffjölbreytni og sjálfbærni.

Ef mannkynið heldur áfram á sömu braut er áætlað að 400 milljónir hektara af skógi og öðrum vistkerfum verði ruddar til landbúnaðar fram til 2050. Á hinn bóginn er talið að hægt sé að endurhæfa skóg og önnur vistkerfi á 1,2 milljörðum hektara lands í heiminum sem nú er nýtt til landbúnaðar. Ljósmynd: PxHere.comRekja má 23 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda til umbyltingar lands vegna skógareyðingar, landbúnaðar og annarrar landnotkunar[1].

Alþjóðlegur vettvangur Sameinuðu þjóðanna um líffjölbreytni og vistkerfaþjónustu, IPBES, telur að skógareyðing og hnignun lands kosti jarðarbúa um tíu prósent af árstekjum þeirra á hverju ári. Skógarvistkerfi draga úr flóðum og leka næringarefna út í vatnavistkerfi. Þegar skógarnir hverfa eykst því flóðahætta og mengun í ám og vötnum. Þar sem skógar eru heilbrigðir er minni hætta á árekstrum fólks og villtra dýra. Þar með er minni hætta á faröldrum eins og þeim sem nú herjar á heimsbyggðina[2].

Skógum hnignar enn þrátt fyrir að allir þekki vandann

Jafnvel þótt dregið hafi úr skógareyðingu í heiminum undanfarin ár bendir Inger Andersen á að enn halli á ógæfuhliðina. Síðustu fimm árin hefur árlega tapast skóglendi á stærð við Portúgal. Til að snúa þessu við þarf endurreisnin eftir COVID-19 að miðast við markmiðin sem sett hafa verið fram í skýrslu sáttmálans um líffjölbreytni,  Global Biodiversity Outlook, að vernda óspillt vistkerfi, endurhæfa vistkerfi, stöðva hnignun og koma böndum á landnotkun með áætlanagerð[3].

En hvernig gerum við þetta? spyr Inger Andersen. Við þurfum að taka þrjú ákveðin skref í stefnu okkar og aðgerðum, segir hún.

1. Nýir hættir í landbúnaði, einum stærsta losunarvaldinum

Losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum eftir greinum efnahagslífsins, byggt á tölum frá 2010. Heimild:  IPCC (2014) Af gríðarmiklum stuðningi til landbúnaðar í heiminum renna aðeins um 15 prósent til málefna sem snerta almannaheill, segir Inger Andersen. Breyta þurfi forgangsröðinni þannig að landbúnaður byggist ekki á því að eyða skógi heldur verði hann byggður á endurnýjun og hringrásum. Landbúnað verði að stunda á forsendum náttúrunnar svo hann leiði til landeflingar en ekki hnignunar.

Nú þegar er farið að veita fjármagn á vegum UNEP og sjóðsins Rabobank AGRI3 þar sem í boði er lánsfé upp á einn milljarð Bandaríkjadala til uppbyggingar hjá bændum í kjölfar COVID-19. Þessu fé er ætlað að flýta fyrir umbótum í átt til sjálfbærni í landbúnaði en Inger segir að þetta sé allt of lítið. Margfalda þurfi slíkar aðgerðir.

En hún segir líka að þróun yfir í sjálfbæran landbúnað sé vel möguleg. Nú þegar séu komin í gang árangursrík verkefni. Hún nefnir þróunarverkefni í ríkinu Andhra Pradesh á Indlandi. Það mætti kalla á íslensku „landbúnað á núlli“ en enska heitið er Zero Budget Natural Farming. Verkefnið hefur verið unnið á yfir 260.000 hektara landsvæði og þegar borið þann árangur að hagur smábænda hefur vænkast og notkun eiturefna og tilbúins áburðar dregist saman.

2. Örva þarf fjárfestingu einkaaðila í skógvernd og skógrækt

Þriðjungur af lausninni á loftslagsvandanum býr í skógum og öðrum náttúrutengdum lausnum, segir Inger Andersen. Þó renni ekki nema um þrjú prósent til þessara lausna af því fjármagni sem veitt er til baráttunnar gegn loftslagsvánni. Meginþungi fjárfestinganna hafi verið í tæknilausnum og nýorku.

Mikilvægt er í þessu ljósi að koma kolefnismörkuðum í gang fyrir alvöru, segir Inger. Markið hafi verið sett á að fjármagna fyrsta gígatonnið af bundnu kolefni með tilstilli einkafjármagns. Á þessu þurfi að vekja athygli og senda út skýr skilaboð svo að markmiðið náist. Þetta á annars vegar að gera með því að koma í veg fyrir losun vegna skógareyðingar og hins vegar með því að binda kolefni með nýskógrækt og endurræktun fallinna skóga.

Dæmi um REDD+ verkefni er til dæmis kakóbaunarækt á Fílabeinsströndinni sem ekki er lengur byggð á því að ryðja sífellt nýjan skóg til framleiðslunnar. Ljósmynd: fao.org/reddTil að ná þessu fyrsta gígatonni þarf fjárfestingar upp á 10-15 milljarða Bandaríkjadollara. Til að liðka fyrir því mælir Inger Andersen með stórauknum árangurstengdum greiðslum vegna skógverndar og skógræktar. Sömuleiðis þurfi verð á skógarkolefni í verkefnum á borð við REDD+ að endurspegla vel kostnaðinn af stefnu og aðgerðum sem hindra skógareyðingu.

REDD-verkefni Sameinuðu þjóðanna er helsta aðgerðaráætlun samtakanna sem snertir skóga. Þar er 65 þróunarlöndum hjálpað við að efla skógvernd, skógstjórn og endurræktun skóga sinna. Alþjóðlegur kolefnismarkaður í tengslum við sjálfbært og sanngjarnt verð á skógarkolefni yrði vatn á myllu aðgerða í þessum löngum að mati Inger.

Þá lítur hún líka björtum augum til áratugar endurreisnar vistkerfa sem fram undan er á vegum UNEP ásamt matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og ýmsum samstarfsaðilum. Þar gefist góður vettvangur til að auka fjárfestingar um allan heim á þessu sviði.

3. Fjölþætta alþjóðlega samvinnu þarf að styðja

Þegar áratugur endurreisnar vistkerfa hefst á næsta ári gefst tækifæri til að sameina markmið um líffjölbreytni og loftslag undir hatti heimsmarkmiða SÞ. Sá rammi sem settur hefur verið utan um líffjölbreytni og náttúrutengdar loftslagslausnir eftir 2020, til dæmis með REDD+ í Parísarsáttmálanum, fær nú loksins þá athygli sem hann á skilið, segir Inger Andersen. Ef við nýtum okkur meðbyrinn í pólitíkinni muni fjárfestingarnar fylgja. Við verðum að stefna að því að fjárfesting í skógvernd og skógrækt skipti milljörðum á hverju ári, bætir hún við.

Of metnaðarfull markmið? Nei, alls ekki

Græni veggurinn mikli mun verja löndin sunnan Sahara gegn ásókn eyðimerkurinnar. Unnið er að skógrækt á 8.000 km löngu belti Mynd: greatgreenwall.orgInger Andersen nefnir stórkostleg dæmi úr fortíðinni um metnaðarfull skógræktarverkefni. Á fjórða áratug síðustu aldar hafi Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti ráðið hundruð þúsunda atvinnulausra landsmanna sinna til að gróðursetja milljarða trjáplantna. Á sjötta áratugnum brugðust Suður-Kóreumenn við hungursneyð og flóttamannavanda með því að rækta upp horfna skóga á ný og endurhæfa vistkerfi. Á okkar dögum er í gangi risastórt ræktunarverkefni sunnan Sahara-eyðimerkurinnar þar sem græni veggurinn mikli er að rísa, Great Green Wall. Þetta framtak felst í því að rækta upp gróðurbelti á átta þúsund kílómetra löngu svæði.

Á slíkum mælikvarða þurfum við að vinna, segir Inger Andersen.

Himinn og haf milli réttrar og rangrar stefnu

Alþjóðleg samtök um matvælaöryggi og landnýtingu, Food and Land Use Coalition, hafa komist að því að fram til 2050 væri hægt að endurhæfa vistkerfi á 1,2 milljörðum hektara lands í heiminum sem nú er nýtt til landbúnaðar. Til að svo megi verða þarf að senda út réttu skilaboðin og búa til réttu hvatana. Ef mannkynið á hinn bóginn heldur áfram uppteknum hætti með ósjálfbærri landnotkun megi búast við að á sama tímabili tapist 400 milljónir hektara í viðbót af náttúrlegum vistkerfum sem rudd yrðu til landbúnaðar. Þetta er einfaldlega ósjálfbært, bendir Inger Andersen á.

„Hreint út sagt, annað hvort höldum við áfram á rangri leið og steypum heiminum í enn meiri vanda eða fetum á rétta braut til hagsbóta fyrir líffjölbreytni og loftslag, skapar störf, styrkir efnahaginn og heilsu mannanna. Kostirnir eru skýrir,“ segir annar aðalritari Sameinuðu þjóðanna og forstjóri umhverfisstofnunar samtakanna, Inger Andersen.


Tilvísanir

[1] IPCC, 2019, Special Report on Climate Change, Desertification, Land Degradation, Sustainable Land Management, Food Security, and Greenhouse gas fluxes in Terrestrial Ecosystems. 

[2] Fréttatilkynning IPBES: Worsening Worldwide Land Degradation Now ‘Critical’, Undermining Well-Being of 3.2 Billion People

[3] Global Biodiversity Outlook

Texti: Pétur Halldórsson
Byggt á: unep.org