Formfagur fjallaþinur með birki og ösp í Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Formfagur fjallaþinur með birki og ösp í Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Abies lasiocarpa

Af þintegundum þekkja flest okkar líklega helst nordmannsþin sem kenndur er við finnska grasafræðinginn Alexander von Nordmann – en alls engan Norðmann. Sú tegund er upprunnin í fjöllunum sunnan og austan við Svartahaf. Hún getur vaxið við allrabestu aðstæður á Íslandi en ekki er raunhæft að rækta hana hér til jólatrjáaframleiðslu miðað við núverandi loftslag. Öðru máli gegnir um hinn norður-ameríska fjallaþin. Með kynbættum afbrigðum fjallaþins sem ræktuð hafa verið fram hérlendis gæti hillt undir að íslenskur fjallaþinur velgi nordmannsþin ærlega undir uggum á jólatrjáamarkaðnum í framtíðinni.

Brynjar Skúlason gróðursetur bláleitan kynbættan fjallaþin í frægarð á Vöglum Þelamörk. Ljósmynd: Pétur HalldórssonFjallaþinur er miðlungsstórt tré og hefur náð 20 metra hæð hérlendis. Við góð skilyrði verður hann að beinvöxnu, einstofna tré með fallega keilulaga krónu. Þintegundir hafa mjúkt barr og nálarnar sitja ekki í nálasætum eins og á greni. Því er börkur ungra þintrjáa einkennandi sléttur. Á eldri trjám eru oft bólur fylltar trjákvoðu undir berkinum – náttúrleg uppspretta handboltaklísturs. Þintré ilma gjarnan vel og það á ekki síst við um fjallaþin sem þekkist á lyktinni af töluverðu færi.

Vöxtur fjallaþins er hægur í fyrstu en verður með tímanum meðalhraður. Helst hentar að rækta tegundina í innsveitum á Íslandi og tegundin gerir miklar kröfur um skjól í æsku. Ungur þinur hefur það sem kallað er æskubarr, sem er aðlögun að því að vaxa í skugga. Það er viðkvæmt fyrir álagi og því líður litlum fjallaþintrjám best undir skermi eldri trjáa í uppvextinum þar sem er skjól og engar öfgar í sólfari, vindi og úrkomu. Svo herðist hann með aldrinum. Þinur þarf frjósaman jarðveg sem einmitt er gjarnan að finna í eldri skógi þar sem örveru- og sveppalíf er komið í góðan gang og heilbrigð umsetning næringarefna.

Styrkleikar og veikleikar

Karlkynhirslur eða karlblóm á fjallaþini. Ljósmynd: Pétur HalldórssonStyrkleiki fjallaþins í ræktun er einmitt skuggþol hans sem auðveldar æskuárin í skóginum en fjallaþinur er líka sæmilega frostþolinn. Til kosta hans telst auðvitað líka formfagur vöxturinn sem gerir hann að hentugu jólatré en líka að mikilli prýði í skógum og görðum.

Helsti veikleikinn er skæður sveppsjúkdómur sem kallast þináta og getur drepið trén. Annar veikleiki er að toppar brotna af fjallaþin í hvassviðri. Eins og fyrr er lýst vill fjallaþinur vaxa upp í skógi og hentar því ekki sem frumherjategund. Hann er ekki mikið ræktaður til timburnytja vegna þess að hann vex hátt til fjalla í heimkynnum sínum og hér á landi hefur okkur ekki tekist að ná fram nógu góðri lífun vegna óþols hans á berangri í æsku og þinátu. Náfrændi hans, balsamþinur (af sumum er fjallaþinur talinn undirtegund balsamþins), er þó mikilvægt timburtré í Kanada og gefur bæði mjög gott hráefni til pappírsgerðar og vel nothæfan smíðavið.

Vonarstjarna á jólum

Til jólatrjáaræktunar hafa talsverðar vonir verið bundnar við fjallaþin, ekki síst til að draga úr þörfinni fyrir innflutning á nordmannsþin sem ræktaður er á ökrum með talsverðu umhverfisálagi. Unnið hefur verið að kvæmavali og kynbótum á fjallaþin undir stjórn Brynjars Skúlasonar skógerfðafræðings, í þeim tilgangi að finna erfðafræðilegan efnivið sem gefur örugg og góð jólatré í ræktun hérlendis. Nú eru að vaxa upp frægarðar tveggja kynbættra afbrigða sem vonast er til að muni gefa fræ til jólatrjáaframleiðslu, vonandi áður en áratugurinn er liðinn. Annað afbrigðið hefur grænan lit en hitt blágrænan og eru móðurtrén í frægörðunum ágræddir klónar bestu trjánna úr kvæmatilraunum hérlendis.

Köngulvísar eða ungkönglar á fjallaþini. Ljósmynd: Pétur HalldórssonFjallaþinur hefur geysistórt útbreiðslusvæði í Norður-Ameríku, allt frá Alaska og Júkon í norðri (64°N) til fjallasvæða í Arisóna og Nýja-Mexíkó í suðri (32°N). Áhugavert er að suðlægustu kvæmin hafa verið meðal þeirra sem best hafa reynst hérlendis en þess verður að geta að þau eru úr um 3.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta er dæmi um trjátegund sem þarf að hörfa lengra til fjalla með hlýnandi loftslagi en sá flótti tekur auðvitað enda þegar hæstu toppum er náð. Trjátegundum á flótta til fjalla gæti þurft að bjarga í framtíðinni með því að finna þeim ný búsvæði, til dæmis á Íslandi. Í 36. tölublaði Frækornsins, fræðslurits Skógræktarfélags Íslands, er nánar fjallað um fjallaþin og kynbótastarf á tegundinni hérlendis. Það má finna á vef félagsins, skog.is.

Kostir fjallaþins sem jólatrés er ekki síst liturinn, hvort heldur sem er sá græni eða sá bláleiti. Þyngst vegur þó líklega barrheldnin sem er engu síðri en á nordmannsþin, sérstaklega hjá græna afbrigðinu. Ilmurinn hefur áður verið nefndur en einnig er vert að minnast á að góður fjallaþinur hefur heldur mjóslegna krónu sem gerir tegundina heppilega heima í stofu á jólunum. Bestu kvæmin hafa uppsveigðar greinar sem gera jólatrén þéttari og fallegri en kvæmi með beinar, láréttar greinar.

Texti: Pétur Halldórsson