Í gær, miðvikudaginn 28. október, var undirritaður grenndarskógarsamningur við Ingunnarskóla í Grafarholti. Um er að ræða samstarfssamning við verkefnið Lesið í skóginn sem er á vegum Skógræktar ríkisins og Umhverfissvið Reykjavíkurborgar. Viðstaddir voru 100 nemendur skólans, bæði úr yngstu og elstu bekkjum. Er Ingunnarskóli fimmtándi skólinn í Reykjavík til að eignast grenndarskóg.

Eldri krakkarnir tóku með sér í gönguna frá skólanum nemendur úr yngstu deildinni og þannig var gengið eftir göngustígum og slóðum að hátíðarrjóðri innarlega í Leirdalnum. Í rjóðrinu sem umlukið er trjágróðri á alla vegu með fallegri grjóthlíð að sunnanverðu sem minnir einna helst á Þingvelli, var myndaður hringur allra viðstaddra og sungið og leikið sér á undan og eftir undirskrift grenndarskógarsamningsins sem Guðlaug Erla Gunnarsdóttir skólastjóri og Þórólfur Jónsson deildarstjóri á Umhverfissviði borgarinnar skrifuðu undir. Að því búnu var boðið upp á kleinur, ávaxtasafa og kaffi.

Þetta var hátíðleg og skemmtileg stund sem fram fór í töluverðum vindi, hlýju veðri en úrkomulausu. Tvisvar hafði athöfninni verið frestað um viku, fyrst vegna veðurs og síðan vegna svínaflensu en allt er þá þrennt er. Rjúpurnar fylgdust með úr fjarska og létur sér fátt um finnast, enda á friðuðu skotsvæði.

frett_29102009(4)

frett_29102009(3)

frett_29102009(5)


Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins