Skaðvaldaspjall í Útvarpinu

Rætt var við Halldór Sverrisson, sérfræðing hjá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, í þættinum Sjónmáli á Rás 1 þriðjudagsmorguninn 10. júní. Tilefnið var meðal annars útkoma nýju bókarinnar um skaðvalda á trjágróðri, Heilbrigði trjágróðurs. Meðal annars er rætt um fiðrildalirfurnar sem eru atkvæðamestar á trjánum snemmsumars.

Formáli af vef Ríkisútvarpsins:

Garðeigendur og skógarbændur geta lent í ýmsum hremmingum fyrir tilstilli náttúrulegra skaðvalda, eins og sveppa og smádýra hvers konar. Á síðari árum hefur þessum trjáskaðvöldum fjölgað vegna hlýnandi veðurfars. Um þetta leyti sumars eru það einkum fiðrildalirfur sem herja á trén.

Trjáræktendur geta þó huggað sig við að í náttúrulegu vistkerfi eru margar lífverur sem höggva í raðir skaðvaldanna. Fuglar ýmsir eru þannig iðnir um þessar mundir við að tína upp fiðrildalirfurnar til að færa ungum sínum í gogginn. 

Í bókinni Heilbrigði trjágróðurs er hægt að fræðast um skaðvalda og sjúkdóma sem herja á trjáplöntur, og varnir við þeim. Bókin kom upphaflega út árið 1997 en hefur nú verið endurútgefin með ítarlegum viðbótum. 

Annar höfundanna, Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur, er í Sjónmáli í dag, ræðir um tré og skaðvalda. Hann talar m.a. um sitkagrenitrén við Miklubraut í Reykjavík sem nýlega var rætt um hvort ætti að fella vegna skemmda fyrir tilstilli lúsar. 

Smellið hér til að hlusta á viðtalið