Hér ganga tveir greinarhöfunda, Laufey Rún Þorsteinsdóttir og Bjarki Þór Kjartansson, niður Illakamb…
Hér ganga tveir greinarhöfunda, Laufey Rún Þorsteinsdóttir og Bjarki Þór Kjartansson, niður Illakamb með skálann Kollumúla í bakgrunni. Þriðji höfundurinn, Elísabet Atladóttir, tók myndina

 

Grein eftir Bjarka Þór KjartanssonElísabetu Atladóttur og Laufeyju Rún Þorsteinsdóttur

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Frá stofnun Skógræktarinnar hefur eitt af meginviðfangsefnum stofnunarinnar verið birkiskógar landsins. Fyrri hluta síðustu aldar var lagt mat á ástand birkiskóga og þeir verndaðir eftir fremsta megni, m.a. með beitarfriðun. Síðar á öldinni var farið í ýtarlegri úttektir, kortlagningu og mælingar á skógunum. Undir lok aldarinnar var gagnsemi skóga í baráttu við loftslagsbreytingar orðin að nýrri áherslu í eftirliti með skógunum. Hér fer á eftir ferðasaga þriggja manna mælingahóps sem mældi birki í Stafafellsfjöllum á Lónsöræfum sumarið 2020. 

Mynd 1. Fossarnir tveir við gönguleið upp Meingilshæðir og MúlakollAlþjóðlegar skuldbindingar landsins sem snúa að loftslagsmálum fengu þá aukið vægi í starfsemi stofnunarinnar. Verkefnið Íslensk skógarúttekt var sett á fót upp úr árinu 2002. Meginmarkmiðið var að mæla standandi kolefnisforða og meta bindingu í skógum landsins, ræktuðum skógum sem og birkiskógum. Frá 2005 til 2010 var mælt af kappi í birkiskógum landsins en raunin var sú að eldri kortlagning var ekki nógu nákvæm fyrir kröfur nútímans. Samstillt átak innan stofnunar sem utan skilaði því að í fyrsta skipti frá landnámi var hægt að staðfesta að birkiskógarnir væru að breiðast út, 1.502 ferkílómetrar að flatarmáli.

Við endurkortlagningu sumarið 2014 fór Bjarki inn í Lónsöræfi til að kortleggja birkiskóga. Gengið var frá Skyndidalsá upp með Jökulsárgljúfri og svæðin í kring kortlögð. Rétt áður en komið er fram á Illakamb blasir við voldugt gil til norðurs þar sem Víðidalsá rennur og sameinast svo Jökulsá í Lóni. Gilið er snarbratt á köflum og samanstendur af skriðum og gljúfrum fyrir ofan beljandi fljótið. Innst í gilinu mátti sjá glitta í grasi vaxna bletti með kjarri sem var þá kortlagt úr fjarska, áður ókortlagt svæði. Þetta svæði kallast Flár og fyrir ofan það eru gil sem kallast Flug og lýsir það heiti brattanum vel. Úr fjarlægð virðist gilið ekki fært nema fuglinum fljúgandi.

Mynd 2. Mosavaxnar hlíðar og birkikjarr við minni Víðidalsár á FláumSvo skemmtilega vildi til að slembivalinn mæliflötur fyrir Íslenska skógarúttekt lenti í kjarrinu þarna í minni Víðidals. Gerð var ferð árið 2017 á svæðið til að mæla þennan punkt. Heimamenn sögðu að þangað væri hægt að fara því þarna væri smalað.

Eftir heilan dag á göngu og nokkurt brölt urðu mælingamenn frá að hverfa því ekki fannst leið niður í gilið. Gengið var með fram börmum gilsins ofanverðs og reynt að finna leið niður. Í þoku og rigningu reyndist það ómögulegt fyrir óstaðkunnuga. Niður í gilið eru snarbrattar líparítskriður sem erfitt er að ganga um og ekki fyrir lofthrædda að vera á ferð.

Mynd 3. Gönguleiðin frá Kollumúla liggur yfir snarbrattar skriður við GjögurSumarið 2020 var ákveðið að reyna aftur að komast á mæliflötinn og vildi svo til að tveir sumarstarfsmenn, Elísabet og Laufey, sem unnu við skógarúttekt það sumarið höfðu nokkra reynslu af klifri og fjallabrölti.

Þrír mælingamenn héldu af stað inn í Lónsöræfi 13. ágúst klyfjaðir mælitækjum, mat og birgðum fyrir allt að þrjá daga. Ekkert símasamband er í Lónsöræfum og var gert ráð fyrir nokkrum tilraunum til að komast í gilið vegna landslags og veðurs en farið yrði niður á láglendi á þriðja degi. Fyrir ferðina var rætt við staðkunnuga heimamenn. Helsta spurningin var hvort það væri í raun hægt að komast fótgangandi ofan í gilið og á Fláar. Jú, einhverjir þekktu til þess að þarna væri smalað og ætti að vera kindagata niður skriðurnar einhvers staðar austan við gönguleiðina og fossana í Meingili. Á gilbarminum við einstigið ætti að vera varða sem þyrfti að finna, en annars voru staðlýsingarnar heldur ónákvæmar.

Mynd 4. Fyrsta tilraun til að finna mæliflötinn bar ekki árangurVið fengum far snemma upp á Illakamb og gengum þaðan í hálftíma að Kollumúlaskála. Í Lónsöræfum var lágskýjað og nokkur vindur en engu að síður gríðarlega fallegt landslag sem blasti við okkur hvert sem var litið. Við ákváðum að halda strax áfram, freista þess að finna göngustíginn og framkvæma mælinguna ef við yrðum heppin. Lögðum af stað með létta bakpoka og regnfötin í seilingarfjarlægð.

Fyrsti hluti göngunnar er hið hrikalega Gjögur, snarbrattar líparítskriður sem þarf að þvera til þess að komast á göngustíginn sem liggur upp Meingilshæðir. Ekki leið á löngu þar til fór að rigna, vatnsheldur fatnaður settur upp í flýti og skyggni orðið lélegt. Við höfðum fengið þær leiðbeiningar að eftir fossana tvo ættum við að stefna beint í austur í átt að gilinu.

Eftir smágöngu blasti við snarbrött hlíðin niður og sást glitta í ána langt fyrir neðan. Við þræddum gilbrúnina nokkuð í suður í leit að leiðinni niður og fundum hana á endanum. Leiðin var hálfgert klifur niður á við og þurftum við að styðja okkur við og toga aðeins í birkikjarrið sem tórði þarna í bröttum skriðunum.

Mynd 5. Laufey Rún bendir á einstigið niður brattar skriðurnar sem við fundum í lok dagsÞegar niður var komið héldum við áleiðis inn gilið og kom fljótt í ljós að við höfðum farið vitlausa leið. Hér var enginn möguleiki á að halda áfram. Við blasti snarbrattur gilskorningur sem lá þvert á leið okkar. Í rigningunni héldum við upp gilið að nýju og tókum nú stystu leið með tilheyrandi príli og fimleikum. Þegar upp var komið gengum við með fram brúninni og eftir örstutta stund komum við auga á fallega vörðu á gilbarminum. Þar greindum við fljótlega óskýran slóða niður skriðurnar með fram klettunum.

Mynd 6. Bjarki Þór, Laufey Rún og Elísabet í lok dagsÞegar hér er komið sögu er farið að bæta hressilega í vind og úrkomu, við öll orðin blaut inn að beini og klukkan að verða sex um kvöld. Við höfðum fundið vörðuna sem við vorum að leita að og héldum því áleiðis í Kollumúlaskála til þess að hvílast, sátt eftir dagsverkið. Góðan kvöldmat þurfti í hlýjum skála til þess að stappa stálinu í okkur svo við gætum endurtekið gönguna daginn eftir.

Við vöknuðum við heiðskíran, fallegan dag, hlýtt var í lofti og logn. Nú vissum við hvert skyldi halda, hnit vörðunnar voru komin inn í GPS-tækið og því auðvelt að komast að henni. Gangan gekk vel og komumst við fljótt að vörðunni þar sem við virtum fyrir okkur niðurleiðina.

Einstigið niður er alls ekki fyrir lofthrædda eða fólk sem skortir jafnvægi. Fyrsti hlutinn var brattastur en svo tók við löng hliðrun inn gilið og upp og niður litla skorninga. Loksins komum við á grasi gróna bakka fljótsins. Grænt grasið og stæðileg tré stungu í stúf við annars stórbrotið landslag Lónsöræfa.

Megnið af skóginum er kjarr en þó finnast svæði með stærri trjám, 2-3 metra háum, og svo einstaka enn stærra tré. Það sem kom okkur mest að óvart voru tvö voldug reynitré, það hærra rúmlega 6 metrar á hæð og þvermálið umtalsvert. Annað tréð er nokkuð beinvaxið en talsvert skemmt á berki að neðanverðu, mögulega vegna reyniviðarátu. Hitt tréð liggur sem stór grein niður brekkuna, snjósligað, en vöxtulegt.

Mynd 7. Stæðileg reynitré vöktu athygli og aðdáun okkar niðri í FláumVið sáum engin minni reynitré á svæðinu né nokkur önnur reynitré á göngu okkar um svæðið. Uppruni þessara trjáa er því óljós og geta má nærri að mjög langt sé í móðurtrén. Fláar eru smalaðir í lok sumars en þar heyja bændur baráttu við snemmbúinn vetur. Mynd 8. Bjarki Þór mundar tölvuna við mælingu á birki í LónsöræfumÞá byrjar kapphlaup við að ná öllu sauðfé niður á láglendi sem tekst ekki alltaf. Skammt frá reynitrjánum lágu nokkur kindahræ sem bændur vissu af.

Eftir að hafa dáðst að reynitrjánum hófst leitin að mælifletinum en hann fannst í brattanum skammt frá reynitrjánum hjá djúpu gili. Birkikjarrið var þétt og undirlendið gróið, sum trén náðu 3 metrum en önnur uxu með jörðinni. Trjánum líður greinilega vel þarna. Mælingin gekk smurt fyrir sig þrátt fyrir að hluti mæliflatarins væri í brekku sem hallaði niður að gili. Við tókum okkur tíma í að mæla þennan merkilega mæliflöt af nákvæmni og tókum okkur góða nestispásu.

Sólin skein og við vorum fljótt komin á stuttermaboli. Fyrir utan einangrunina vorum við komin í algjöra paradís hér við bakka Víðidalsár og einstök tilfinning að vera svo fjarri öllum mannabyggðum.

Mynd 9. Laufey Rún og Bjarki Þór sátt eftir árangursríka mælingu og ferðAð lokinni mælingu gengum aftur sömu leið inn í Kollumúlaskála og komum þangað undir kvöldið. Við fögnuðum þessum áfanga með veglegum kvöldverði sem samanstóð af skógarsveppum sem við fundum á leiðinni, ódýrum núðlusúpum og einum pakka af stolinni bollasúpu frá skálaverðinum.

Daginn eftir var gengið aftur upp á Illakamb þar sem beið okkar bíll sem færði okkur aftur til byggða. Mikil gleði var í mælingahópnum að hafa náð þessum áfanga en sömuleiðis var talsverð þreyta eftir göngu síðustu daga.

Lónsöræfi kvöddu okkur með sól og fallegu veðri og þreytu í fótunum. Með eftirvæntingu eftir heitri sturtu fundum við einnig fyrir trega að fara niður úr þessum fallegu fjöllum en þetta verður ekki síðasta sinn sem við heimsækjum Lónsöræfi.

Mælingamenn vilja koma á framfæri kærum þökkum til Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir að veita okkur aðstöðu í Kollumúla á tímum Covid-19.

 

 

Mynd 10. Gengið niður Illakamb með skálann í Kollumúla í bakgrunni

 Ársrit Skógræktarinnar 2020