Endurbætur standa nú yfir á félagsheimili Fljótsdælinga Végarði en það var byggt árið 1959.  Á seinustu árum hefur viðhaldi á húsinu lítið verið sinnt og  orðið brýnt að taka til hendinni.  Í tengslum við virkjunarframkvæmdir gerði sveitarstjórn Fljótsdalshrepps samning við Landsvirkjun um leigu á félagsheimilinu.  Mun Landsvirkjun starfrækja upplýsingamiðstöð um Kárahnjúkavirkjun meðan á virkjunarframkvæmdum stendur. 

Arkitektastofan Kanon sá um hönnun, verkakafyrirtækið Völvusteinn um verklegar framkvæmdir og ARKÍS sér um eftirlitsþáttinn.  Endurbótunum á að vera lokið í febrúar 2004.  Eins og sjá má á myndinni er búið að klæða anddyrið með íslensku lerki úr Hallormsstaðaskógi og er það vel við hæfi þar sem Fljótsdalur er einstaklega vel til skógræktar fallinn.  Lerkiklæðning á því vel við á félagsheimili sveitarinnar.
Rússalerkinu var plantað árið 1957 og voru trén að meðaltali 14 m há.
Timbrið var þurrkað í sérstökum gám og flett með bandsög að gerð Wood-Mizer sem Félag skógarbænda á Héraði og Skógræktin á Hallormstað eiga.  Sögin hefur valdið straumhvörfum fyrir skógareigendur við að fletta trjábolum og möguleikum þeirra á að koma afurðum sínum í verð.