Þessi mynd var tekin af fasananum í Þöll milli éljanna sem gengu yfir suðvesturhorn landsins í morgu…
Þessi mynd var tekin af fasananum í Þöll milli éljanna sem gengu yfir suðvesturhorn landsins í morgun. Ljósmynd: Steinar Björgvinsson

APRÍLGABB SKÓGRÆKTARINNAR 2019:

Myndarlegur fasani spígsporaði milli trjánna við gróðrarstöðina Þöll í Hafnarfirði þegar starfsfólk þar kom til vinnu í morgun. Talið er að fuglinn hafi komið til landsins með flutningaskipi sem nú liggur við bryggju í Hafnarfirði. Fasaninn verður til sýnis til kl. 16 í dag.

Gróðrarstöðin Þöll er rekin sem sjálfstæð eining í eigu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.  Steinar Björgvinsson ræktunarstjóri sér um daglegan rekstur og segir að sér hafi brugðið í brún þegar þessi glæsilegi fugl var kominn þarna í skóginn. Fasanar eru vinsæl viðibráð skotveiðimanna á meginlandi Evrópu en innflutningur lifandi dýra er háður ströngum reglum og leyfum sem trúlega fylgja ekki þessum tiltekna fugli.

Þó svo að gróðrarstöðin Þöll sé fyrst og fremst opin yfir sumartímann er hægt að hafa samband við ræktunarstjórann á öðrum tímum ársins til að fá ráðleggingar um plöntuval og sitthvað fleira. Starfsemin liggur aldrei alveg niðri og nú fer hún að glæðast enda hækkandi sól og vorið fram undan með hefðbundnum önnum. Á meðan fasaninn hefur ekki verið fjarlægður verður hann í haldi í Þöll og geta gestir komið og skoðað hann þar til vinnudegi lýkur um klukkan 16 í dag.

Þöll er við Kaldárselsveg í Hafnarfirði nærri Íshestum og skammt frá Hvaleyrarvatni.

Texti: Pétur Halldórsson
Sérstakar þakkir: Steinar Björgvinsson, ræktunarstjóri í Þöll