Serbagrenið við Laugarásveginn. Ljósmynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Serbagrenið við Laugarásveginn. Ljósmynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Laugardaginn 14. september var farin skógarganga á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur, Skógræktarfélags Íslands og Garðyrkjufélags Íslands um Laugarásinn í Reykjavík. Leiðsögumenn voru Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar skógræktar á Mógilsá og Jóhann Pálsson, fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar.

Í göngunni var meðal annars litið í garð Snæbjarnar heitins Jónassonar vegamálastjóra. Í garðinum eru margar tegundir áhugaverðra og sérstæðra trjáa og runna. Meðal fágætra tegunda sem er að finna í garði Snæbjarnar er ein fágætasta grenitegund heims; serbagreni (Picea omorika). Umrætt tré er orðið 40-50 ára gamalt og er tæplega 10 m á hæð. Tréð sést á meðfylgjandi mynd; vinstra megin við það sést rauðleitt stökkbrigði broddhlyns (Acer platanoides).

Serbagreni á sér merkilega sögu. Tegundin virðist hafa verið útbreidd um gjörvalla Evrópu fyrir síðasta kuldaskeið ísaldar. Meðan á fimbulkulda síðasta kuldaskeiðs stóð hefur hún haldið velli á afar takmörkuðu landssvæði umhverfis ána Drinu, á landamærum Bosníu-Herzegovínu og Serbíu, og lítið sem ekkert breiðst þaðan út eftir að núverandi hlýskeið hófst, fyrir ríflega tíu þúsund árum. Mat á stofnstærð tegundarinnar bendir til að aðeins sé að finna um eitt þúsund tré á náttúrlegu útbreiðslusvæði tegundarinnar. Þessi fáu tré er að finna á um 60 hektara svæði í fjöllunum Tara, Zvijezda, Viogor, Radomišlja , Jadovnik.

Hins vegar er tegundin útbreidd í ræktun vítt og breitt um Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Tegundin er hraðvaxta við erfið skilyrði, svo sem í rýrum jarðvegi og á svæðum þar sem gætir loftmengunar. Hún er af þeim sökum eitt algengasta garðtré á iðnaðarsvæðum Mið- og Austur-Evrópu. Hún er lítið reynd hér á landi, en af þeirri takmörkuðu reynslu sem fengist hefur virðist hún vera kulvísari en algengustu grenitegundir sem hér eru í ræktun.