Hratt vaxandi þörf fyrir trjávið til brennslu

Evrópubúar hafa snúið sér í vaxandi mæli að trjáviði sem orkugjafa hin síðari ár, sérstaklega eftir að viður var viðurkenndur sem endurnýjanlegur orkugjafi og kolefnishlutlaus. Mun auðveldara og fljótlegra er að nota trjávið sem grænan orkugjafa en til dæmis sólar- og vindorku. Til dæmis má nota 10% viðarkurl á móti kolum í kolaorkuverum. Þar eru allir innviðir til staðar og orkuverin tengd við raforkunetið. Uppbygging sólar- og vindorkuvera er hins vegar dýr og tímafrek. Í Póllandi og Finnlandi nemur viðarbrennsla um 80% af þeirri orkunotkun sem skilgreind er sem endurnýjanleg. Nútímamaðurinn er þar með að snúa sér í vaxandi mæli að því sem var helsti orkugjafi mannkynsins fyrir iðnbyltinguna. Um þetta var fjallað í grein í tímaritinu The Economist 6. apríl 2013.

Blaðið talaði í greininni um viðarkurl sem eldsneyti framtíðarinnar. Þetta er athyglisvert fyrir okkur Íslendinga nú þegar til stendur að reisa tvær nýjar kísilmálmverksmiðjur á landinu og auka þannig notkun viðarkurls í iðnaði. Fram kemur í greininni að árið 2012 hafi verið notaðar 13 milljónir tonna af viðarkurli í Evrópu samkvæmt upplýsingum frá kanadíska fyrirtækinu International Wood Markets Group. Útlit sé fyrir að viðarþörfin í Evrópu vaxi upp í 25-30 milljónir tonna fram til ársins 2020. Nefnt er að unnið sé að því að breyta kolaorkuverum, til dæmis í Þýskalandi og Bretlandi, þannig að þau geti brennt trjáviði eingöngu. Þetta sé meðal annars gert til að ná megi markmiðum Evrópumanna um að hlutfall endurnýjanlegrar orku verði þar 20% árið 2020.

Vandinn er að ekki er framleitt nægilega mikið timbur í evrópskum skógum til að anna þessari auknu eftirspurn. Þess vegna þarf að flytja inn viðarkurl til Evrópu, rétt eins og gert er á Íslandi. Flutningur vex á trjáviði frá Norður-Ameríku til Evrópu. Þessi innflutningur jókst um heil 50 prósent á árinu 2010 einu að því er fram kemur hjá The Economist. Eftirspurnin fari líka vaxandi í Kína og því sé nú spáð að sala viðarkurls á heimsmarkaði aukist fimm- eða sexfalt fram til 2020, úr 10-12 milljónum tonna upp í 60 milljónir tonna samkvæmt því sem blaðið hefur eftir evrópska viðarkurlsráðinu, European Pellet Council.

Síðast en ekki síst kemur fram í greininni að vafasamt sé að kalla megi viðarkurl kolefnishlutlausan orkugjafa. Til að mynda fari mikil orka í vinnslu viðarins og flutninga og erfitt að henda reiður á hvort jafnmikið er bundið af kolefni í nýjum skógi og það sem losað er með brennslu viðarins. Hin aukna eftirspurn hefur líka ýmsar afleiðingar. Verð á trjáviði hækkar sem hefur m.a. áhrif á byggingariðnaðinn. Til dæmis hafa fyrirtæki í spónaplötuiðnaði lagt upp laupana. Auk þess óttast menn, segir The Economist, að notkun trjáviðar sem grænnar orku hægi á þróun annarrar grænnar orkutækni eins og sólarorku- og vindorkutækni.

Smellið hér til að lesa greinina í The Economist