Fimmtudaginn 27. mars heimsótti s.k. framkvæmdaráð S.r. Suðurlandsdeild. Var fundurinn haldinn á Tumastöðum í hinu mikla skógarhéraði Fljótshlíð. Ýmis mál voru rædd á fundinum varðandi framkvæmdaáætlun deildarinnar og fjárhagsáætlun. Kom m.a. fram að ekki væri nægu fjármagni veitt til deildarinnar og þótti fundarmönnum eðlilegt að það yrði aukið á næstu árum enda er Suðurlandsdeild með mest flatarmál gróðursettra skóga til umsjónar af deildum S.r. Eftir hádegi marseraði hópurinn út í Tunguskóg, sem er 40 ára greniskógur, og var skoðuð grisjun sem nú stendur yfir. Lárus Heiðarsson ráðunautur eystra vinnur við að setja upp grisjunartilraun í reitnum og skv. fyrstu ágiskunum hans er meðalársvöxtur í sitkagreniskóginum yfir 8 rúmmetrar á hvern ha. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd þurfti að styðja skógræktarstjóra þegar honum var sagt hversu gamall skógurinn var og hversu mikill árlegur viðarvöxtur er.