Gefur ýmsa möguleika fyrir skógariðnaðinn

Alþjóðlegum hópi vísindafólks hefur tekist að raðgreina erfðamengi af einni tegund myrtutrjáa, Eucalyptus grandis. Þessi árangur er sagður opna ýmsar dyr fyrir skógariðnaðinn.

„Nú þegar við vitum hvaða gen stýra tilteknum einkennum í þessum trjám getum við ræktað tré sem vaxa hraðar, mynda betri við og nýta bæði landrými og vatn betur,“ segir forsvarsmaður rannsóknarverkefnisins, Zander Myburg, prófessor við háskólann í Pretoríu í Suður-Afríku. Hann segir að þetta geri líka kleift að rækta tré sem eigi betra með að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. Í fyllingu tímans verði mögulega hægt að þróa aðferðir við að rækta myrtutré á ökrum sem nokkurs konar „lífverksmiðjur“ til að framleiða ýmis verðmæt og eftirsótt efni.

Tegundin Eucalyptus grandis gefur af sér timbur, beðmi og hráefni til pappírsgerðar en líka eucalyptus-olíu sem er notuð sem hreinsiefni, leysiefni í iðnaði, sem lyktareyðir, í hóstamixtúrur, tannkrem og ýmsan varning sem er ætlað að losa um nefstíflur og ámóta óþægindi. Þessi olía er líka virkt efni í sumum tegundum af moskítófælandi vörum. Þar fyrir utan er eucalyptus-olía í vaxandi mæli notuð í ýmsum öðrum iðnaði, allt frá textíliðnaði upp í lyfjaframleiðslu. Tegundin er upp runnin í Ástralíu en hefur verið flutt vítt og breitt um heiminn til ræktunar, aðallega þó til landa í heittempraða beltinu. Þau finnast þó líka á svalari svæðum eins og með fram vesturströnd Norður-Ameríku allt norður til Bresku-Kólumbíu.

Engar trjátegundir eru ræktaðar á stærra svæði samanlagt en tegundir og blendingar af ættkvíslinni Eucalyptus, alls á yfir 20 milljónum hektara. Akra með hvers konar myrtutrjám má finna í yfir 90 löndum og þar eru trén ræktuð í stuttum 6-9 ára lotum, aðallega til að framleiða viðartrefjar. Mikil framleiðni þessara tegunda gerir að verkum að minna þarf að reiða sig á afurðir úr náttúrlegum skógum, sérstaklega í þróunarlöndunum þar sem mest er ræktað af myrtutrjám, eftir því sem haft er eftir áðurnefndum Myburg prófessor í tímaritinu Nature 19. júní.

Myrtutrjátegundin Eucalyptus grandis er önnur lauftrjátegundin sem hefur verið raðgreind að fullu erfðafræðilega. Sú fyrsta var alaskaösp, Populus trichocarpa, sem hefur eitt stysta erfðamengi af öllum trjám. Zander Myburg prófessor segir að nú, þegar hægt er að bera erfðamengi myrtutrjánna saman við erfðamengi alaskaaspar en líka erfðamengi víðirunna, grenis og furu, gefist færi á að rannsaka einstaka líffræðilega þætti stórvaxinna og langlífra trjátegunda sem séu mikilvægar víða í vistkerfum jarðarinnar.

Rétt eins og mönnum tókst á sínum tíma að auka vöxt og viðargæði í ösp blasir nú við að nota sömu tækni og aðferðir á aðrar viðarkenndar plöntur sem henta til stórfelldrar ræktunar á lífmassa. Þetta sér Myburg prófessor fyrir sér að geti hjálpað til að byggja upp samfélag sem reiðir sig ekki lengur á jarðefnaeldsneyti heldur annars konar lífrænan orkugjafa. Þessi árangur sem hér greinir frá undirstrikar að sögn Myburgs að er runninn upp nýr tími þar sem erfðatæknin fer að bera ávöxt í skógræktarrannsóknum. Nú sjáum við fram á tækniframfarir sem geri kleift að finna lausnir á vandamálum eins og loftslagsbreytingum og ýmsum tengdum vandamálum eins og auknum sjúkdómum og skaðvöldum. Í framtíðinni verði ræktuð tré sem vaxi hraðar en nú þekkist og með meiri viðargæðum, allt með sjálfbærum hætti.

Nú þegar er vísindafólk um allan heim farið að vinna með erfðamengi trjáa og leita að genum sem stýra tilteknum þáttum í eiginleikum trjánna en líka til að auðvelda vefjaræktun myrtutrjáa sem vaxa hraðar og mynda þann við sem óskað er eftir, þola betur skaðvalda og hafa aukna mótstöðu gegn ógnum eins og þurrkum, kuldum, seltu og fleiru sem spillt getur vexti og þroska trjánna.

Rannsóknarverkefnið þar sem erfðamengi myrtutrjáa var greint naut styrks frá orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna og stofnuninni Joint Genome Institute (DOE-JGI). Í hinu alþjóðlega teymi voru um 80 vísindamenn frá meira en 30 stofnunum í 18 lndum. Fimm ár tók að raðgreina og vinna úr þeim 640 milljónum basapara sem erfðamengi myrtutrjaá hefur að geyma.

Nánari fróðleik má finna á vefnum með því að smella hér en einnig í tölublaði tímaritsins Nature frá 19. júní 2014.

Heimild: IUFRO

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson