Brynjar Skúlason frævar hér evrópulerki með frjói af rússalerki í Fræhúsinu á Vöglum þar sem lerkibl…
Brynjar Skúlason frævar hér evrópulerki með frjói af rússalerki í Fræhúsinu á Vöglum þar sem lerkiblendingurinn Hrymur er framleiddur við stýrðar aðstæður. Brynjar stýrir nú trjákynbótastarfi Skógræktarinnar.

Unnið að verkáætlun um trjákynbætur hjá Skógræktinni

Með kvæmaprófunum í áratugi hefur tekist að finna góðan efnivið til ræktunar hérlend­is af þeim trjátegundum sem mest eru not­að­ar hér í skógrækt. Nú er tími kvæma­próf­ana liðinn og komið að því að kynbæta þenn­an efnivið til að ná enn betri árangri. Þetta segir Brynjar Skúlason skógerfða­fræð­ingur sem stýrir trjákynbótum hjá Skóg­ræktinni.

Um 650 trjátegundir hafa verið reyndar í skógrækt á Íslandi, langflestar innfluttar. Af þessum eru þó einungis 5 megintegundir sem mynda um 85% þeirra skógarplantna sem nú eru notaðar. Þessar mikilvægu tegundir eru ilmbjörk, sitkagreni (ásamt hvítgreni og sitkabastarði), stafafura, rússa­lerki og alaskaösp. Allar þessar tegundir hafa verið gróðursettar í kvæmatilraunum um land allt sem gefa mikilvægar upplýs­ing­ar um hvaða efniviður hentar best á hverjum stað. Einnig er að finna stakar gróðursetningar á ýmsum aldri víða um land.

Bæði tilraunirnar og eldri gróðursetningar innihalda fjölbreytt erfðaefni og miklar upplýsingar liggja nú fyrir um hvaða kvæmi henta best fyrir íslenskar aðstæður. Brynjar segir að tími kvæmaprófana sé að mestu liðinn fyrir þær trjáteg­und­ir sem mest eru notaðar og kominn tími til að taka næsta skref, að velja úrvalseinstaklinga af bestu kvæmunum og víxla saman til fræframleiðslu og kynbóta.

Þessi mynd var tekin snemma í mars í sitkagrenifrægarðinum á Tumastöðum í Fljótshlíð. Tumastaðir og Vaglir verða miðstöðvar endurnýjunarefnis hjá Skógræktinni. Myndina tók Hrafn Óskarsson

Teymi um kynbótastarfið

Kynbætur trjáa eru langtímaverkefni. Teymi innan Skógræktarinnar undirbýr nú verkáætlun til nokkurra ára um fræöflun og kynbætur áðurnefndra trjátegunda sem hefur að markmiði að tryggja besta fáan­lega erfðaefnið til skógræktar á hverjum tíma.

Gert er ráð fyrir að starfstöð Skóg­ræktar­innar að Tumastöðum í Fljótshlíð fái aukið hlutverk sem móðurplöntustöð og fræ­garða­­svæði fyrir ýmsar trjátegundir. Fræ­umsýsla og fræframleiðsla fyrir lerki inn­andyra verður áfram á Vöglum í Fnjóska­dal. Að sögn Brynjars getur hlýnandi veðurfar mótað áherslur í erfðaefni til skógræktar og einnig haft áhrif á hvaða svæði veljist til skógræktar í framtíðinni.

Birki og sitkagreni

'Embla‘ kallast kynbætt yrki af ilmbjörk sem reynst hefur vel um land allt. Sömu sögu er að segja um hið svokallaða Bæj­ar­staða­úrval af birki. Brynjar segir að lögð verði áhersla á að varðveita þetta hvort tveggja og þar með það kyn­bóta­starf sem þegar hefur farið fram með íslenskt birki. Starfinu verði svo fylgt eftir með frekari kynbótum. Einnig sé nú verið að prófa ýmis kvæmi hengibirkis en svo geti farið að sú tegund henti betur á láglendi þegar tímar líða með hlýn­andi veðurfari.

Stofnað var til frægarðs með sitkagreni á Tumastöðum árið 2012 með vaxtarmiklum klónum sem jafnframt sýndu merki um mótstöðu við sitkalús. Fjöldi kvæma sitkagrenis, með mismikilli innblöndun hvítgrenis, hefur verið í víðtækri prófun um land allt og segir Brynjar að tímabært sé orðið að mæla þær tilraunir og undirbúa val á úrvalseinstaklingum sem ræktaðir yrðu í nýjum frægarði.

Unnið að gróðursetningu ágræddra lerkiplantna í Fræhúsinu á Vöglum í nóvember 2016. Húsið verður nú fyllt af evrópulerki og rússalerki til að auka framleiðslu á Hrymsfræi. Á myndinni eru frá vinstri: Brynjar Skúlason, Þuríður Davíðsdóttir, Valgeir Davíðsson og Valgerður Jónsdóttir.

Aukin áhersla á 'Hrym‘

Brynjar bendir á að með hlýnandi veðurfari verði sífellt áhættu­samara að rækta rússa­lerki á lág­lendi hérlendis og í stefni að eina trygga svæðið fyrir tegundina verði inn til landsins á Norð­austurlandi. 'Hrymur‘, sem er tegunda­blend­­ingur rússalerkis og evrópulerkis, vex að jafnaði umtalsvert hraðar en hreint rússa­lerki á láglendi. Honum er síður hætt við vorkali en þó hættara við haustkali. Á næstu árum verður lögð áhersla á að hámarka framleiðslu þessa tegunda­blend­ings í fræhúsinu á Vöglum, segir Brynjar. Við ræktun rússalerkis verði áfram treyst á fræ úr frægörðum frá Svíþjóð og Finnlandi.

Stafafura og ösp

Ýmis kvæmi af stafafuru hafa verið reynd í skógrækt hérlendis og hefur kvæmið Skagway jafnan staðið sig vel. Einn­ig hefur komið í ljós að Skagway nýtist líka að hluta sem jólatré. Jólatrjáafrægarður fyrir stafafuru er þegar í undir­bún­ingi og í framhaldinu verður unnið að vali á klónum fyrir timburfrægarð. Stafafura úr sænskum frægörðum er komin í prófun um land allt í samanburði við kvæmi sem áður hafa reynst vel hérlendis.

Grunnstofnar í uppeldi sem notaðir verða til ágræðslu sprota af úrvalstrjám. Ljósmynd: Pétur HalldórssonBirkitré af Bæjarstaðaúrvali sem ræktuð voru í Fræhúsinu á Vöglum hafa nú verið fjarlægð enda seldist fræið ekki mikið auk þess sem vantaði upp á spírun. Skógræktin varðveitir þó áfram Bæjarstaðaúrvalið. Hér til vinstri sjást lerkitré sem ætlað er að verða grunnstofnar til ágræðslu fyrir Fræhúsið á Vöglum. Hægra megin glittir í stafafurur sem einnig er verið að rækta til ágræðslu. Stefnt er að því að koma upp frægarði stafafuru fyrir bæði timburskógrækt og jólatrjáarækt.

Stór samanburðartilraun klóna af alaska­ösp var sett út um land allt og hefur þegar gefið miklar upplýsingar um hvaða klónar henta hvar á landinu. Til að bregðast við útbreiðslu asparryðs á Suður- og Vestur­landi hófst vinna við nýjar víxlanir góðra asparklóna og klóna sem þóttu hafa gott ryðþol.  Nokkrir ryðþolnir klónar frá þess­um víxlunum hafa verið valdir til áfram­haldandi notkunar. Verður þeim komið fyrir í móðurplöntureit á Tumastöðum þar sem skógarplöntuframleiðendur geta fengið af þeim efnivið til framleiðslu.

Loks er ónefndur fjallaþinurinn sem Brynjar hefur unnið að kynbótum á um árabil. Hann ver doktors­ritgerð sína í skógfræði við Kaupmannahafnar­háskóla síðar í þess­um mánuði og fjallar ritgerðin einmitt um rann­sóknir hans á fjallaþin. Þess er vænst að kynbætur Brynjars á fjallaþin verði til þess að á Íslandi verði hægt að rækta tegundina sem fyrsta flokks jólatré sem keppt geti við innfluttan nordmannsþin og jafnvel gert innflutning hans óþarfan þegar tímar líða. Sprotar af úrvalstrjám hafa verið græddir á grunnstofna sem nú eru í uppeldi á Vöglum og verða settir í frægarð á komandi árum. Af þess­um trjám verða tvær gerðir jólatrjáa, grænt afbrigði fjallaþins og bláleitt. Af íslenskum tegundum hefur stafafura verið vinsælasta jólatréð undanfarin ár og verður vafalaust áfram. Þinurinn verður hins vegar góð viðbót og ætti að falla í kramið hjá mörgum.

Ágræddar fjallaþinplöntur sem verið er að rækta upp á Vöglum í væntanlegan frægarð fyrir jólatrjáaframleiðslu. Ágræddir voru sprotar af úrvalstrjám af bæði grænum og bláleitum kvæmum.

Texti: Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson