Birki er eina innlenda trjátegundin sem hefur myndað skóga á Íslandi á núverandi hlýskeiði, eða síðustu 10.000 árin. Það hefur verið áætlað að birkiskógar og kjarr hafi þakið meira en fjórðung landsins við landnám eða um 28.000 km2, áætlaða útbreiðslu má sjá á fyrri myndinni hér fyrir neðan.

Lítið er nú eftir af þessum skóglendum en þau þekja í dag um 1% af yfirborði landsins og að mestum hluta er um kjarr að ræða. Samvinna margra ólíkra þátta er meginástæðan fyrir skógareyðingunni, má þar nefna áhrif landnýtingar, veðurfar og jarðhræringar.

Þar sem skógarleifar finnst enn í dag hefur líklega verið skógur eða skógarleifar allt frá landnámi, en ekki er hægt að segja að eiginlegur „landnámsskógur“ sé varðveittur þar sem birkiskógurinn endurnýjar sig frekar hratt. Birki verður sjaldan eldra en 150 ára gamalt. Þar sem skógurinn endurnýjar sig oft með rótarskotum getur verið að einstakir einstaklingar birkis séu margra alda gamlir, það er rótin getur hafa lifað í margar aldir.