Nemandi LBHÍ gerir aðalskipulag Borgarbyggðar að umtalsefni í Morgunblaðsgrein

„Að skógrækt sé skipulagsskyld frekar en annars konar landbúnaður er einkennilegt að mínu mati,“ skrifar Ívar Örn Þrastarson, nemandi við Landbúnaðarháskóla Íslands, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, 16. apríl. Hann gagnrýnir nýtt aðalskipulag Borgarbyggðar þar sem íþyngjandi ákvæði eru um skógrækt og færir rök fyrir vistfræðilegri gagnsemi skógræktar með fram ám og vötnum.

Fyrirsögn greinarinnar er „Furðulegt aðalskipulag í Borgarbyggð og einkennileg vistfræði“. Tilefni skrifanna er viðtal við Ragnar Frank Kristjánsson, forseta sveitarstjórnar Borgarbyggðar, í Morgunblaðinu 13. mars síðastliðinn og erindi hans á fagráðstefnu Skógræktar á Selfossi 12. mars.  Ívar Örn spyr hvers vegna skógrækt sé gerð skipulagsskyld en annars konar landnotkun ekki. Hæpið sé að sveitarfélag geti með þessum hætti heft möguleika landeigenda um hvernig þeir nýti land sitt, jafnvel að það vegi að eignar og ráðstöfunarrétti þeirra enda séu í landslögum ákvæði um hvar ekki megi rækta skóg. Auk þess sé skógrækt afturkræf sem gefi færi á að hverfa til annars konar landnytja síðar.

Ívar Örn fer einnig yfir vistfræðileg rök fyrir skógrækt með fram ám og vötnum. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar eru ákvæði um að ekki megi planta skógi nær árbökkum og vötnum en 30 metrum. Það sé sérkennilegt því slíkur gróður á bökkum áa og vatna dragi úr hættu á að mengun berist í árnar og vötnin og skapi einnig betri skilyrði fyrir þær lífverur sem þar búa. Auk þess tempri trjágróður vatnsbúskapinn, dragi úr flóðum og þurrkum.

Smellið hér til að lesa greinina alla