Í apríl var sagt frá spírandi hlynfræjum í garði á Selfossi og velt vöngum yfir því hvort hlynirnir ættu nokkurn möguleika á því að lifa af óblíða veðráttu hér á landi. Nú þegar þetta er ritað hafa hlynirnir flestir bætt verulega við blaðmassa sinn. Fyrstu blöðin sem komu á plönturnar voru löng og mjó kímblöð. Næsta blaðasett sem kom á hlynina var alls ólíkt þeim (sjá mynd), en alls ekki líkt hlynblöðum. Það er ekki fyrr en nú að þriðja blaðasettið er að myndast á plöntunum að þau eru loks farin að taka á sig mynd hlynblaða.

  Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru hlynir ofarlega á matseðli skorkvikinda og er blaðasett nr. 2 uppétið á mörgum plantnanna. Ekki mun garðeigandinn þó úða garðinn sinn með skordýraeitri enda verða fuglar og önnur smádýr helst fyrir barðinu á slíkum aðgerðum.  Nú er að bíða og sjá hvort hlynirnir nái að hausta sig eðlilega eða hvort haustfrost fækki þeim.