Alkílatbensín dregur úr mengun frá keðjusögum og bætir líðan skógarhöggsmanna

Öflug keðjusög er besta áhald skógarhöggsmannsins. Líklega var keðjusögin á sínum tíma enn meiri bylting fyrir atvinnugreinina en stóru skógarhöggsvélarnar sem nú eru notaðar í skógum vítt og breitt um heiminn og nú meira að segja á Íslandi. Keðjusagirnar margfölduðu afköst skógarhöggsmanna og spöruðu mikinn tíma og peninga. En gallinn við þessar ágætu vélar er óneitanlega óloftið sem frá þeim kemur.

Ýmsar litlar vélar sem notaðar eru til að létta störf í garðyrkju og skógrækt eru þessu marki brenndar. Allt þar fram undir þetta hafa engar reglugerðir verið til um mengun frá sláttuvélum, keðjusögum og öðrum ámóta smávélum. Í Bandaríkjunum, þar sem löng hefð er fyrir framleiðslu bensínknúinna smávéla, var ekki farið að setja reglur um útblástur frá þeim fyrr en rétt fyrir aldamótin 2000. Um hverja helgi er áætlað að um 54 milljónir Bandaríkjamanna fari út að slá lóðina að því er fram kemur á vefnum People Powered Machines. Á hverju ári séu notaðir þar í landi yfir þrír milljarðar lítra af bensíni á sláttuvélar. Af þessu er augljóslega gríðarleg mengun. Sérstaklega hefur fólk áhyggjur af koleinoxíði, rokgjörnum lífrænum efnasamböndum og nituroxíði. Áætlað er að um 5% af loftmengun í Bandaríkjunum stafi frá litlum vélum sem þessum og þetta hlutfall sé talsvert hærra í þéttbýli.

Eftir því sem bandaríska umhverfisstofnunin EPA hefur látið frá sér fara gefur ný bensínsláttuvél frá sér á einni klukkustund álíka mikið af rokgjörnum lífrænum efnasamböndum og nituroxíði og 40 nýir fólksbílar sem ekið er í klukkustund.


Mynd: People Powered Machines


Á vefnum áðurnefnda, People Powered Machines, er tekinn annar samanburður, við slysið fræga þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði við Alaskastrendur árið 1989. Hjá EPA hafi menn áætlað að á hverju ári sulli notendur sláttuvéla niður yfir 64 milljónum lítra af bensíni og það sé meira magn en það sem fór í sjóinn af olíu í nefndu olíuslysi. Öll þekkjum við hversu erfitt er að fylla á geyma sláttuvéla án þess að neitt fari til spillis. Bensínið sem sláttuvélanotendur sullar niður mengar grunnvatn en sumt gufar upp og bætist við þær eiturgufur sem vélarnar blása frá sér. Óloftið stuðlar líka að aukinni ósonmyndun þegar heitt er og sólríkt í veðri. Þar fyrir utan dregur þessi mengun úr vexti plantna í görðum fólks sem dugar kannski sem röksemd gegn bensínknúnum sláttuvélum fyrir þau sem hirða ekki um loftmengunarrökin.

Nokkurra áratuga gamlar bensínsláttuvélar blása hartnær þriðjungi eldsneytisins óbrunnu út úr sér en vélarnar hafa þrátt fyrir allt lagast nokkuð hin síðari ár. Árið 2012 voru reglur til að mynda hertar mjög í Bandaríkjunum um útblástur véla af þessum toga. Því má búast við að eitthvað dragi úr óloftinu á komandi árum. Væntanlega á það við um keðjusagir eins og aðrar vélar, að nýjar vélar séu betri en þær gömlu.

Heima á lóð er auðvelt að leysa mengunarvandamálið með því að fá sér rafknúna sláttuvél eða nota gömlu, góðu handsláttuvélina. Slíkar lausnir duga hins vegar ekki úti í skógi. Þar þarf áfram að nota bensínknúnar keðjusagir, um sinn að minnsta kosti.

Margir skógarhöggsmenn kannast við að hafa fengið höfuðverk að áliðnum vinnudegi með keðjusögina og við þessu var brugðist hjá embætti skógarvarðarins á Austurlandi með því að nota svokallað alkílatbensín í stað hefðbundins bensíns á vélarnar (ekki er kunnugt um betra orð um fyrirbærið á íslensku). Alkílatbensín er unnið úr jarðolíu eins og hefðbundið bensín en er hreinna. Samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Daníelssyni, efnaverkfræðingi hjá Vinnueftirlitinu, er þetta mettað eldsneyti, vetnisríkt, án arómata og alkena, og brennur betur í tvígengisvélum og öðrum einföldum eða lélegum vélum. Það gefur því frá sér minna af sóti og karbónýlefnum fyrir utan óbrennda arómata og ólefín sem hafa áhrif á heilsu fólks. Í þessu bensíni er til dæmis ekki kolvetnissambandið bensen sem sýnt er að getur valdið krabbameini. Bensen er mjög hvarfgjarnt efni og getur meðal annars víxlverkað við DNA, erfðaefni lífvera.

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, segir að skógarhöggsmenn hafi ekki kvartað yfir höfuðverk að afloknum vinnudegi eftir að farið var að nota alkílatbensín á keðjusagirnar eystra. Þetta bensín er að vísu meira en helmingi dýrara en hefðbundið bensín. Væntanlega borgar það sig þó margfaldlega, frekar en að spilla heilsu starfsmannanna.

Svo virðist samt sem alkílatbensín sé ekki mikið notað hérlendis ef marka má svör stærstu olíufélaganna við fyrirspurnum Skógræktar ríkisins um efnið. Þetta bensín fæst hjá N1 en aðeins í 200 lítra tunnum. Skeljungur hætti að selja það vegna lítillar eftirspurnar og Olís hefur ekki haft það á boðstólum hingað til. Þar virtist þó vera áhugi á að reyna sölu þess.

Alkílatbensín endist illa í hillu og því er áhættusamt fyrir innflytjendur að flytja það inn upp á von og óvon um sölu. Ljóst er þó að eftirspurn og framboð eru þættir sem toga hvor í annan. Enginn kaupir það sem ekki fæst og enginn getur selt það sem ekki er spurt um. Með betri vitund almennings, skógræktarfólks, garðyrkjufólks og annarra sem nota smávélar af ýmsum toga ætti eftirspurnin að aukast. En varan verður líka að vera fáanleg í handhægum umbúðum og aðgengileg sem víðast fyrir neytendur.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson