Tveggja daga ráðstefna á Hallormsstað

Í vikunni var haldin á Hallormsstað tveggja daga ráðstefna á vegum tveggja verkefna sem eru bæði undir hatti norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins, NPP eða Northern Periphery Programme. Bæði verkefnin eru á sviði endurnýjanlegrar orku. Annað kallast BioPad og snýst um að auka notkun lífeldsneytis í norðlægum löndum en hitt heitir Remote og markmið þess er að gera íbúum í norðrinu kleift að nýta sér endurnýjanlega orkugjafa, ekki síst íbúum afskekktra byggða eða héraða. Loftur Jónsson, skógfræðingur á Hörðalandi í Noregi, tekur þátt í Remote-verkefninu fyrir hönd Noregs og ráðstefnan var haldin á Hallormsstað að tilstuðlan hans. Íslendingar eru ekki formlegir þátttakendur.

Alls tóku fimmtán manns þátt í ráðstefnunni dagana 19.-20. maí. Þátttakendur voru frá Bretlandi, Írlandi, Skotlandi, Finnlandi, Noregi og fleiri löndum. Farið var í vettvangsferðir, fylgst með grisjun ungs lerkiskógar með skógarhöggsvél í landi Mela í Fljótsdal og viðarkyndistöð Skógarorku á Hallormsstað skoðuð. Einnig var Hitaveita Egilsstaða og Fella heimsótt.

Fyrri dag ráðstefnunnar var rætt um nytjaskógrækt frá ýmsum hliðum, um trjátegundir, vöxt skóga, grisjunaraðferðir og fleira. Fjallað var um virðiskeðjur skógræktar, um uppskeru skóga og tekjur af skógarafurðum en einnig úrvinnslu, þurrkun, kurlun, flutning og kostnað við þessa úrvinnslu- og söluþætti. Seinni daginn var borið saman hvernig gengi að koma í framkvæmd áætlunum um aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í þátttökulöndunum. Öll hafa löndin sett sér markmið um aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrir árið 2020 en misjafnlega gengur að ná þeim markmiðum. Svíar hafa þegar náð sínum markmiðum en Finnar til dæmis ekki og litlar líkur eru taldar á að þau háleitu markmið sem Bretar og Írar hafa sett sér geti náðst fyrir 2020 svo dæmi séu tekin. Veltu menn fyrir sér á fundinum hvernig stæði á því að sumt gengi upp en annað ekki, hvað væri raunhæft, hverju mætti breyta og svo framvegis. Borið var saman hvernig búið væri að þessum greinum í löndunum, hvernig markaður með endurnýjanlegt eldsneyti væri frá einu landi til annars og þess háttar.

Íslenskir fyrirlesarar á ráðstefnunni sögðu frá nýtingu skógarafurða á Íslandi. Lárus Heiðarsson, skógæktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, sagði frá vexti og grisjun, Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, og Gunnlaugur Guðjónsson, fjármálastjóri Skógræktar ríkisins, fjölluðu um þann markað sem skapast hefur hérlendis fyrir lífmassa úr skógi með sölu á trjáviði til kísilmálmvinnslu, ræddu bæði tekju- og útgjaldaliði. Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á Mógilsá, sagði frá norræna WoodBio-verkefninu sem er hluti af NordBio og miðar að því að þróa og efla nýtingu á lífmassa úr skógi sem endurnýjanlegu eldsneyti og Sigurður Ingi Friðleifsson, forstöðumaður Orkuseturs, sagði frá áætlunum sem gerðar hafa verið um viðarkyndistöð í Grímsey.


Meðal þess sem ráðstefnugestir skoðuðu var hvernig Kristján Már Magnússon
grisjar skóg á nýju skógarhöggsvélinni sinni.


Í skóginum á Melum í Fljótsdal.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ragna Flotve