Lagðir verða malarstígar sem afmarkaðir verða með köðlum, smíðaðir trépallar og tröppur.
Lagðir verða malarstígar sem afmarkaðir verða með köðlum, smíðaðir trépallar og tröppur.

Mikið álag vegna fjölgunar ferðamanna

Framkvæmdir ganga vel við Hjálparfoss í Þjórsárdal þar sem í smíðum eru tröppur og pallar fyrir gesti sem koma til að skoða fossinn og umhverfi hans. Lagðir verða vel afmarkaðir stígar og ætti svæðið því að þola betur sívaxandi straum ferðamanna. Gróður hafði mjög látið á sjá við Hjálparfoss allrasíðustu ár. Fossinn er í landi Skógræktar ríkisins og tekur Skógræktin þátt í umsjón svæðisins ásamt sveitarfélaginu, Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Áætlað er að framkvæmdirnar við fossinn kosti um sex milljónir króna. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði í lok maí reglugerð um úthlutun styrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna átaks til uppbyggingar á ferðamannastöðum sumarið 2014.

Markmiðið var að styrkja sérstaklega framkvæmdir á gönguleiðum og göngustígum sem lægju undir skemmdum. Víða þyrfti að koma upp öryggisgrindverkum og pöllum við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna enda væri talið að slysahætta væri veruleg á mörgum þessara staða. Hjálparfoss er einn af þessum stöðum og hlaut Skeiða- og Gnúpverjahreppur fjórar milljónir króna úr sjóðnum og Skógrækt ríkisins tvær milljónir svo bæta mætti aðgengi að fossinum, auka öryggi ferðamanna og hlífa viðkvæmum gróðri.

Við hönnun mannvirkjanna var leitast við að búa til leiðir og útsýnisstaði með þeim hætti að fólk gengi sem minnst á gróðrinum. Reynslan er sú annars staðar að ef mannvirki sem þessi eru vel gerð og skýrt afmörkuð er lítið um traðk utan þeirra. Langstærstur hluti ferðamanna haldi sig á afmörkuðum gönguleiðum.

Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sagði í samtali við vefinn skogur.is að verkefnið við Hjálparfoss væri afskaplega þarft. Ágangur ferðamanna hefði verið mjög vaxandi og svæðið alls ekki verið í stakk búið að taka við honum. Hann sagði einnig að glæfralegri gönguleið sem myndast hefur upp malarkambinn vestan fossins yrði lokað. Bæði hefði verið fyrirsjáanlegt að traðk yrði sífellt meira áberandi ef þar væri gengið áfram og þarna væri líka slysahætta.

Um hönnun sáu Marey arkitektar og teiknistofan Steinsholt sf. Verktakinn sem vinnur verkið við Hjálparfoss er Þrándarholt sf., fyrirtæki bræðranna Ingvars Þrándarsonar, húsasmíðameistara og Arnórs Hans Þrándarsonar húsasmiðs. Þeir hófu verkið um miðjan september og ef tíðin leyfir er útlit fyrir að því verði lokið í nóvembermánuði.

Sterkbyggðar trétröppur koma í stað frumstæðra malartrappna
sem áður lágu niður að fossinum og voru úr sér gengnar
vegna ágangs og vatnsrofs.


Af trépalli sem hér verður má horfa á fossinn en líka niður með ánni
og yfir til Búrfells.Texti og myndir: Pétur Halldórsson