Brynjar byrjar að bora í annan stofninn.
Brynjar byrjar að bora í annan stofninn.

Stofnarnir tveir festir saman með vír til að lengja líf trésins

Stofnar rúmlega aldargamallar hengibjarkar hafa nú verið festir saman með vír til að hindra að tréð klofni. Sprunga var komin í stofninn þar sem hann skiptist í tvennt og höfðu menn áhyggjur af því að tréð gæti klofnað og drepist. Björkin stendur við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri og var líklega ræktuð þar upp af norsku fræi snemma á 20. öld.

Hengibjörk er líka kölluð vörtubirki eða finnskt birki og heitir á latínu Betula pendula. Í Skandinavíu eru fullvaxta tré af þessari tegund gjarnan 15-25 metra hæð en tréð við Gömlu-Gróðrarstöðina er örugglega komin yfir 15 metra hæð. Aðstæður eru samt nokkuð erfiðar til að mæla hæð trésins nákvæmlega.

Á síðustu misserum hefur myndast sprunga í stofninn neðan við skiptinguna sem smám saman hefur gleikkað og því höfðu menn áhyggjur af því að dagar trésins gætu senn verið taldir, yrði ekkert að gert. Annar eða báðir stofnarnir hefðu getað brotnað í stórviðri, stofninn klofnað og tréð drepist

Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktar ríkisins, gekk til verks í gær til að bjarga trénu ásamt Brynjari Skúlasyni, skógfræðingi hjá Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Fengnir voru myndarlegir 10 mm snittteinar og tilheyrandi lykkjur og festingar ásamt vír til að strengja milli stofna trésins. Borað var í báða stofnana, teinunum stungið í gegn og vírinn festur á milli. Loks var hert upp á teinunum og stofnarnir togaðir örlítið saman.

Nú er vonandi að hengibjörkin fallega fái að standa lengi enn. Þetta er án efa bæði elsta og stærsta hengibjörk á Íslandi og stór tré af þessari tegund eru sjaldgæf hérlendis.

Eftirfarandi myndband af aðgerðinni birtist á vef Ríkisútvarpsins í dag:

Hengibjörkin hefur skipst snemma í tvo stofna. Nú eru þeir orðnir svo þungir að sprunga
hefur myndast þar sem stofninn skiptist. Vírinn lengir vonandi lífdaga trésins eitthvað
en nú er meiningin að gróðursetja nýtt hengibirki sem tekur við hinu
í fyllingu tímans.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
Myndvinnsla og klipping: Björgvin Kolbeinsson