Íslenskt timbur sem ræktað er með sjálfbærum hætti gæti leyst af hólmi þverrandi fiskistofna sem upp…
Íslenskt timbur sem ræktað er með sjálfbærum hætti gæti leyst af hólmi þverrandi fiskistofna sem uppspretta fóðurs fyrir eldisfiska. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Lirfur sem éta afganga frá matvælaframleiðslu og sveppir sem nærast á hliðarafurðum úr skógrækt gætu verið framtíðin í fóðrun eldisfisks.

Þetta segir í umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar skrifar Ásgeir Ingvarsson blaðamaður um áhugaverðar rannsóknir sem nú standa yfir og miða að því að framleiða fóður fyrir fiskeldi með umhcerfisvænum en u leið hagkvæmum hætti.

Áfram er haldið í greininni á þessa leið:

Jón Árnason, sérfræðingur hjá Matís, segir til mikils að vinna, enda myndi fóðurkaup á bilinu 50-70% af breytilegum kostnaði  fiskeldisfyrirtækja, og Evrópa þurfi í dag að flytja inn um það bil 70% af því próteini sem notað er í fóðurgerð hvort heldur er
til framleiðslu á kjöti eða fiski.

Jón, sem heldur erindi um þessi mál á Strandbúnaðarráðstefnunni síðar í mánuðinum, segir að framanaf hafi fiskeldisstöðvar notað fóður gert úr fiskimjöli og lýsi en verðhækkanir og verðsveiflur hafi orðið til þess að greinin fór að leita annarra fóðurhráefna sem nota mætti í staðinn án þess að draga úr næringargildi fóðursins. „Sú leið hefur verið farin að skipta fiskimjölinu og lýsinu að hluta út fyrir jurtaprótein og þá einkum aukaafurðir úr akuryrkju, s.s. úr korni og olíufræjum,“ útskýrirJón og bætir við að tegundir eins og laxinn séu ekki matvandar og eigi meira sameiginlegt með hundum sem fúlsa varla við nokkrum mat, ólíkt köttunum sem sætta sig ekki við hvað sem er. Að skipta úr fiskmjöli yfir í jurtaprótein komi því ekki að sök:

„Það skiptir ekki höfuðmáli hvaðan næringarefnin koma, heldur einfaldlega að fóðrið innihaldi nýtanleg næringarefni í því magni sem fiskurinn þarf til að vaxa,“ segir hann en auk olíu og próteins úr jurtum er blandað í fóðrið vítamínum, steinefnum og litarefninu astaxathín sem laxinn þarf til að fá fallega bleika litinn á holdið.

„Fiskurinn vex jafn vel þegar búið er að skipta fiskimjöli út fyrir jurtaprótein en áhrifin á sótspor eru takmörkuð,“ útskýrir Jón en í fiskafóðrið er í dag einkum notað hráefni úr hveiti-, soja-, repju- og sólblómarækt. Hann segir flestar fóðurtegundir þó ennþá innihalda fiskimjöl í einhverju magni, og aðeins nýlega að framleiðendur hófu að selja fóður sem eingöngu er gert úr jurtaafurðum.

Nauðsynlegt að leita nýrra leiða

„Þörfin fyrir dýraprótein fyrir okkur manneskjurnar fer bara vaxandi og ekkert dýr nýtir fóðrið eins vel og fiskar. Er svo komið að í dag má fá nærri kíló af eldislaxi fyrir hvert kíló af þurru fóðri sem gefið er, og að notkun á villtum fiski í fóðrið er að jafnaði um 0,6 kíló af villtum fiski til að framleiða hvert kíló af laxi sem framleitt er.“

Tilfærslan yfir í jurtaprótein og -olíur kemur m.a. til af því að fiskeldi vex hratt á meðan lítið sem ekkert svigrúm er til að auka veiðar á villtum fiski til fóðurgerðar. Í dag er svo komið að um helmingur alls þess fisks sem neytt er í heiminum er ræktaður í eldisstöðvum og á hlutur eldisfisksins aðeins eftir að aukast, og mun þörfin fyrir fóður aukast í takt við það.

Næsta skref verður því að finna leiðir til að gera gott fóður úr lífmassa sem í dag fer til spillis, og þar koma rannsóknir Matís og samstarfsaðila til sögunnar. Segir Jón að rannsakendur beini sjónum sínum einkum að því að nýta aukaafurðir sem verða til við vinnslu skógviðar, og við framleiðslu matvæla. „Áætlað er að um 30% af þeim skógi sem ræktaður er í Evrópu séu ekki nýtt almennilega. Þessa hliðarafurð má brjóta niður í frumeindir sínar svo að úr verða sykrur sem nota má sem æti fyrir sveppa-einfrumunga og svo nýta sveppina sem próteinhráefni í fiskafóðrið.“

Jón segir að sömuleiðis verði um þriðjungur allra matvæla að úrgangi í framleiðsluferlinu og hægt að nýta þennan úrgang sem fóður fyrir flugulirfur. „Síðan má uppskera lirfurnar og nota, rétt eins og sveppina, sem hráefni í fóður fyrir eldisfisk. Bæði sá lífmassi sem fellur til í matvælageiranum, og í skógrækt, gæti dugað til að koma í stað alls þess próteins sem fóðurframleiðendur í Evrópu þurfa í dag að flytja inn annars staðar frá.“

Þriðja sóknartækifærið felst í framleiðslu örþörunga sem nota má sem próteingjafa og uppsprettu langkeðju fitusýra. „Með því að stýra vaxtarskilyrðum þörunganna til að hámarka framleiðslu og afköst. Allt virkar þetta síðan saman til að lágmarka umhverfisáhrif og tryggja fiskeldisfyrirtækjum aðgang að góðu hráefni til fóðurgerðar, á viðráðanlegu verði.“

Skjámynd af greininni í Morgunblaðinu