Íslendingar geta notað sín eigin ræktuðu tré, segja borgaryfirvöld í Ósló

Íbúar Reykjavíkur, Rotterdam og Lundúna hafa fengið tré að gjöf frá vinum sínum í Ósló í meira en hálfa öld en nú er útlit fyrir Breytingar. Tréð sem stóð á Austurvelli um síðustu jól gæti orðið það síðasta sem berst frá Óslóarborg. Borgaryfirvöld þar íhuga að hætta að senda tré til Reykjavíkur og Rotterdam en vilja áfram senda Lundúnabúum tré. Í frétt á vef Óslóarborgar er haft eftir yfirvöldum að þetta sé of dýrt, flókið og umhverfisáhrifin mikil. Norðmenn óska þess þó að fá áfram að leggja eitthvað til aðventunnar í Reykjavík.

Erfiður flutningur

„Þetta hefur verið afskaplega falleg hefð að senda jólatré til Reykjavíkur, Rotterdam og Lundúna en nú sjáum við að þetta er farið að verða mjög flókið og dýrt, sérstaklega til Reykjavíkur og Rotterdam, segir borgarstjóri Óslóarborgar,“ Fabian Stang. Trén þurfi að fá heilbrigðisvottorð áður en þau eru send af stað og svo þurfi að semja við ótalmörg fyrirtæki um flutning þeirra þangað sem þeim er stillt upp. Til dæmis sé tré Reykvíkinga fyrst sett á dráttarvagn sem ekið er með til Fredrikstad. Þar sé því útvegað ókeypis far með íslensku flutningaskipi. Nú beri svo við að viðkomandi skipafélag vilji fá greitt fyrir flutninginn og þá verði Óslóarborg annað hvort að punga út fyrir þeim kostnaði eða finna annað skipafélag sem er tilbúið til að kippa stóreflis grenitré með til Íslands.

Sparnaður upp á 180.000 norskar

Starfsfólk Óslóarborgar bendir á að það sé mikil fyrirhöfn að finna og höggva jólatré Í grennd við Ósló til að gleðja íbúa í öðrum löndum Norður-Evrópu. Því fylgi líka óheppilega mikið álag á umhverfið að flytja stór grenitré um langan veg. Jafnframt er bent á að Íslendingar hafi stundað nýskógrækt í áratugi og nú séu vaxin upp nægilega stór grenitré til að þau megi nota sem jólatré á torgum. Það spari Óslóarborg 180.000 norskar krónur í beinhörðum peningum að hætta þessum gjöfum til viðbótar við sparnað á auðlindum.

Vilja áfram tendra ljósin

Borgarstjórnarfólk í Ósló vill samt sem áður áfram taka þátt í því að kveikja ljós á jólatrjám í Rotterdam og Reykjavík. Fabien Stang segir að Óslóarbúar vilji viðhalda þeim góðu og notalegu siðum sem skapast hafi. Þetta megi til dæmis gera með því að leggja eitthvað til menningarlífsins. Aðspurður telur hann ekki að þetta þurfi að spilla tengslum vinaborganna. Þvert á móti geti svona breyting verið vítamínsprauta í samskipti borganna því nú þurfi allir að leggjast á eitt að finna þessum tengslum nýjan farveg. 

Áfram tré til Lundúna

Að sögn talsmanns Óslóarborgar er ekki meiningin að hætta að gefa Lundúnabúum tré til að stilla upp á Trafalgar-torgi. Það sé svo mikilvægur þáttur í norskri sögu og tákn um vináttu Norðmanna og Breta að allt verði gert til að viðhalda þeirri hefð.

Hvað sem öðru líður má kannski segja að í þessu felist ákveðin tímamót í skógræktarsögu Íslendinga. Skilaboð skógarþjóðarinnar Norðmanna má túlka sem svo að nú séu íslenskir skógar orðnir svo þroskaðir að ekki sé ástæða lengur til að senda hingað jólatré. Við hjá Skógræktinni tökum þetta sem hrós og staðfestingu á gildi og árangri skógræktar í landinu.