Meðal efnis í nýútkomnu fréttabréfi Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps eru mælingar á hæstu trjám á st…
Meðal efnis í nýútkomnu fréttabréfi Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps eru mælingar á hæstu trjám á starfsvæði félagsins. Það hæsta reyndist vera 14 metra hátt sitkagreni.

Meðal efnis í nýútkomnu fréttabréfi Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps

Fyrir hvern gest sem gistir í Gistihúsinu Mýri að Ásamýri í Flóa gróðursetur heima­fólk á bænum eitt tré. Ef gestirnir vilja geta þeir fengið að gróðursetja tréð sjálfir. Þetta er meðal efnis í nýtúrkomnu frétta­bréfi Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps. Anna Valgerður Sigurðardóttir rekur ferða­þjón­ust­una að Ásamýri ásamt manni sínum, Þor­birni Jónssyni. Hún segir í samtali við tíð­inda­mann félagsins að henni hafi fundist upplagt að setja niður tré fyrir hvern gest sem gistir hjá þeim enda ætli þau sér að rækta skóg á landi sínu. Í kynningum nota þau enska slagorðið „Stay for a tree“ eða „Dvöl fyrir tré“.

Félagið stóð nýlega fyrir mælingum á hæstu trjánum á starfsvæði sínu og reyndist hæsta tréð vera fjórtán metra hátt sitkagreni í skógi félagsins við Vot­múla­veg. Fram kemur að sitkagrenið vaxi vel í votviðrinu og frjósömum jarð­veg­in­um á þessum slóðum en krumma er kennt um að hæstu trén skuli ekki vera orðin enn hærri því hann setjist á toppa trjánna og brjóti þá. Um trjá­mæl­ing­arn­ar sá Böðvar Guðmundsson, skógfræðingur og skógræktarráðgjafi hjá Skóg­ræktinni.


Reitur Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps við Votmúlaveg hefur gengið undir nokkr­um nöfnum en aldrei hlotið formlegt heiti. Heitin Byggðarhornsgirðingin, Vatnaskógur og Systraflöt hafa verið notuð en nú vill félagið koma varanlegu heiti á skóginn og auglýsir í fréttabréfinu eftir hugmyndum.

Annars er efni fréttabréfsins fjölbreytt. Rætt er um málefni félagsins og fluttar fregnir af stjórnarfundum og aðalfundi, fjallað um skjóláhrif trjánna sem vaxið hafa upp á Selfossi undanfarin ár, um nauðsyn­lega grisjun í Nautaskógi sem er annar reitur félagsins og fleira.

Lesa má fréttabréfið í heild með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Texti: Pétur Halldórsson