Rætt við skógarvörðinn á Norðurlandi í sjónvarpsfréttum

Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, svaraði fréttamanni Ríkisútvarpsins í sjónvarpsfréttum í gær um vöxt skóga á Norðurlandi í sumar. Fréttin er á þessa leið:

Leita þarf mörg ár aftur í tímann til að finna sambærilegan trjávöxt og var á Akureyri í sumar. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Norðurlandi, spáir góðum vexti barrtrjáa næsta sumar, verði veðurfar þokkalegt.

Vaglaskógur í Fnjóskadal hefur verið í eigu Skógræktar ríkisins frá árinu 1898. Rúnar Ísleifsson er með aðsetur á Vöglum og hann fylgist náið með vexti einstakra tjátegunda fyrir norðan. Hann segir að birkið hafi litið mjög vel út í sumar. Engin óværa hafi herjað á það og það vaxið mjög vel. „Og maður sér til dæmis á alaskaöspinni að það er feykilegur vöxtur í henni, sjálfsagt uppundir eins metra árssprotar hér á þessu svæði, sem þykir mjög gott,“ segir hann.

Barrtrén koma mjög vel út, til dæmis hið sígræna rauðgreni. Og vöxturinn á lerki og stafafuru var ágætur í sumar. Rúnar segir þetta eitt besta skógræktarsumarið í langan tíma. „Þetta er nú alltaf spurning um minni, en ég held nú að við þurfum að leita ansi mörg ár aftur í tímann, til þess, að finna sambærilegt sumar við þetta.“

Birkið óx og dafnaði sérstaklega vel í sumar. Og skógarvörðurinn á Norðurlandi er þegar farinn að hugsa til næsta sumars: „Ef fram heldur sem horfir, og það er svo sem farið að styttast í veturinn, þá gæti orðið mjög góður vöxtur í barrtrjám næsta sumar, ef við fáum þokkalegt sumar.“

Smellið hér til að horfa. Fréttin hefst eftir 15.05 mín.