Snorri með fyrsta gítarinn úr smiðju sinni, gerðan úr íslenskri stafafuru. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson
Snorri með fyrsta gítarinn úr smiðju sinni, gerðan úr íslenskri stafafuru. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Góður hljómur er í rafmagnsgítar sem Snorri Páll Jóhannsson, skógarhöggsmaður hjá Skógræktinni á Hallormsstað, hefur smíðað. Viðinn í gripinn fékk hann úr stafafuru sem brotnaði ofan af í óveðri fyrir fáeinum árum.

Árið 1964 var gróðursetur lítill lundur af stafafuru í Trjásafninu á Hallormsstað, í skráningu stendur 130 tré. Ekki komust þau öll á legg og sum þeirra urðu margstofna eins og stundum gerist. Margstofna tré brotna gjarnan síðar á lífsleiðinni, oft undan bleytusnjó og hvassviðri. Fyrir einum fjórum árum brotnaði ofan af einni af þessum stafafurum sem var orðin töluvert bolmikil. Tréð var fellt við rót og fékkst einn góður bolur úr því. Var hann fluttur heim á hlað og lá þar í hálfgerðri óreiðu langan tíma, allt þar til tveir af skógarhöggsmönnnum hjá Skógræktinni á Hallormsstað, þeir Sigfús J. Oddson og Snorri P. Jóhannsson, ákváðu að fá bolinn, saga hann niður í þykka planka og smíða úr hluta þeirra rafmagnsgítara. Efnið var þurrkað og geymt í allnokkra mánuði áður en hafist var handa.

Á myndunum má sjá rafmagnsgítar sem Snorri er búinn að klára. Þess skal getið að hálsinn á gripnum er úr innfluttum hlyn. Þetta er fyrsti gítarinn sem Snorri smíðar. Það fylgir sögunni að gripurinn sé mjög hljómfagur.

Texti: Þór Þorfinnsson
Myndir: Snorri/Þór