Þórsmörk og Goðaland eru með merkilegustu endurheimtarverkefnum birkiskóga á landinu. Þar var lítill og fremur lágvaxinn skógur eftir á um 200 ha svæði og mikið jarðvegsrof í upphafi 20. aldar en eftir rúmlega 90 ára friðun Merkurinnar hafa skógar breiðst út og vaxa nú á um 1500 ha svæði upp til fjalla og út á aura. Það sem er einna merkilegast við útbreiðslu skóganna er að svæðið er allt yfir 200 metra hæð yfir sjávarmáli og að skógar eru farnir að sá sér upp á fjöll í yfir 550 metra hæð. Er skógurinn í mikilli útbreiðslu og mun veita góða vernd fyrir jarðveg þegar öskugos framtíðarinnar munu þekja svæðið eldfjallaösku, en þess ber að geta að skógurinn bar engan skaða af öskufalli Eyjafjallajökulsgossins, þvert á móti virtist askan gagnast gróðri til aukins vaxtar.

Margar jurtir vaxa í birkiskógunum og hefur einir (Juniperus communis), eina innlenda barrtréð, breiðst mjög út. Má nú finna nokkra áratuga gamlar einiplöntur sem vaxa uppávið ólíkt þeim jarðlægu runnum sem áður sáust einungis á svæðinu. Má búast við að þessar einihríslur haldi áfram að hækka og 2-3 m einirunnar sjáist á svæðinu í framtíðinni. Skógarvörður var á ferðinni í Mörkinni fyrir nokkrum dögum og rakst á afar sérstakan einirunna sem hefur ólíkt öðrum einirunnum tekið upp á því að vaxa niður í móti, en runninn vex fram af klettabrún og hangir fastur á nokkuð sverum gömlum stofni og sterkum rótum. Þennan einstaka einirunna er að finna milli Fremra- og Innra-Slyppugils í Þórsmörk og á hann líklega fáa sína líka í landinu en hann hangir niður fyrir klettabrúnina og teygir sig eina tvo metra. Ekki er gott að segja hversu löng rótin er ofan við runnan en líklega er hún nokkrir metrar á lengd. Gæti þessi runni verið afar gamall, en einir getur orðið mörg hundruð ára gamall. Meðfylgjandi myndir af uppréttum einirunnum og hangandi einirunnanum segja meira en mörg orð.

22072012-(1)

22072012-(2)

22072012-(4)

Myndir og texti: Hreinn Óskarsson