Hjördís Jónsdóttir, ljósmyndari og skógfræðinemi, segir að mikilvægi skógræktar muni aukast á komand…
Hjördís Jónsdóttir, ljósmyndari og skógfræðinemi, segir að mikilvægi skógræktar muni aukast á komandi árum. Hún mælir með skógfræðináminu við LbhÍ og segir þetta ekki karlagrein enda sé meirihluti nemendanna í árgangi hennar konur. Ljósmynd úr Mannlífi

Ungan ljósmyndara, Hjördísi Jónsdóttur, langaði að læra meira og ákvað að setjast á skólabekk við Landbúnaðarháskóla Íslands til að læra skógfræði. Hvatningin var meðal annars loftslagskvíði og þörfin fyrir að bæta umhverfið frekar en að taka þátt í eyðileggingu þess. Hjördís segir að fólk sem lifir og snýst í skógrækt sé jarðbundið og fallegt fólk með hjartað á réttum stað.

Viðtal við Hjördísi birtist nýlega í Mannlífi og þar kemur fram að hún er meðal ungs skógræktarfólks sem stofnaði félagsskapinn Ungviði, ungliðahreyfingu Skógræktarfélags Íslands. Hjördís lætur vel af skógfræðináminu við LbhÍ og lítur framtíðina björtum augum. Meðal annars sé spennandi að horfa til nýrra trjátegunda sem geti mögulega dafnað á Íslandi á komandi tíð.

Hjördís segist hafa farið í skógfræði vegna forvitni og áhuga og við grípum hér niður í viðtalinu.

Hjördís segir að forvitni og áhugi á að læra meira um heiminn ýti sér út í að prófa nýja hluti. Hún hefur tamið sér að segja já við sem flestum nýjungum og hugmyndum og ekki séð eftir neinu enn þá heldur orðið reynslunni ríkari. „Þessi hugsunarháttur hefur reynst mér vel og fékk mig til að skrá mig í skógfræðinám í Landbúnaðarháskólanum,“ segir Hjördís.

„Ég hafði upplifað mikinn loftlagskvíða í einhvern tíma og hugsaði mikið um hvernig ég gæti lagt mitt af mörkum en ég ákvað að ég vildi frekar nota tímann minn í að bæta umhverfið frekar en að taka þátt í eyðileggingu þess. Gróður er undirstaða lífs á jörðu eins og við þekkjum það. Við reiðum okkur á plöntur og annan gróður fyrir nánast allt. Helsta og lífsnauðsynlegasta hlutverk gróðurs er framleiðsla súrefnis og undirstaða fæðu okkar. Einnig reiðum við okkur á gróður fyrir lyf, fatnað, skjól, eldsneyti og samgöngur, eldivið, geðheilsu og innblástur, en fegurð gróðurs getur prýtt umhverfi okkar eins og list,“ segir Hjördís og bætir við:

„Á meðan vinkonur mínar þjást af „babyfever“ er ég illa haldin af „plöntufever“ og litlar líkur á bata á næstunni. Það er eitthvað fullnægjandi við að læra að hirða um lífveru og sjá hana dafna eða blómstra,“ segir Hjördís, sem segist vel geta hugsað sér að nýta ljósmyndunina í skógræktinni, þar sem henni þykir skóglendi eitt fallegasta og áhugaverðasta umhverfi í heimi.

Ótal tækifæri tengd skógfræðinni

Hjördís fann strax að loknu fyrsta námsári í skógfræðinni að ótal tækifæri voru tengd faginu og segir hún mikla eftirspurn eftir ungum einstaklingum innan skógræktargeirans. „Ísland er tilraunaland þegar kemur að mörgu og er skógrækt þar með talin. Aðeins lítill hluti trjátegunda þrífst hér á landi en mikilvægt er að þekkja aðrar erlendar tegundir og einkenni þeirra til þess að halda áfram tilraunastarfsemi í skógrækt. Með hlýnandi loftslagi gætu skilyrðin hérlendis orðið hentugri fyrir fleiri tegundir.“

Hjördís lætur vel af náminu og skólanum og segir að það sé greinilega aukinn áhugi á skógrækt, sem sést í fjölgun nýnema milli ára en á síðasta ári margfaldaðist fjöldi nýnema í skógfræðinni.

„Utan frá virðist skógfræði og skógrækt kannski vera frekar karllægt starf, en ég er ánægð með þann fjölda kvenna sem sækir í námið en konur eru í meirihluta í bekknum. Það er mjög hvetjandi að sjá aðrar flottar konur sækja í stéttir þar sem karlar hafa alltaf verið í miklum meirihluta og vonandi getum við orðið fyrirmyndir fyrir einhverjar ungar stelpur sem eiga eftir að ákveða framtíðarstarfið. Ég vil sjá fleiri konur í skógrækt!“ segir hún og brosir.

„Mikilvægi skógræktar mun aukast á næstu áratugum“

Hún lætur líka vel af skólanum og persónulegri starfsemi og viðmóti starfsfólks þar. „Viðmótið er jákvætt og allir tilbúnir til að hjálpast að. Ég er svo heppin að geta stundað námið sem er kennt á Hvanneyri þó að ég búi í Reykjavík en allir fyrirlestrar eru mér aðgengilegir á netinu. Skyldumæting í verklega kennslu fylgir þó náminu inn á milli, en á meðan ég læri um náttúru Íslandi fæ ég að njóta útivistar svo ég tel það algjöran plús,“ segir Hjördís.

Hjördís lætur vel af skógfræðináminu

„Margir hafa áhuga á að græða landið og vinna úr afurðum skógarins en vita ekki alveg hvernig eða hvar þeir eiga að byrja. Nýlega stofnuðum við nokkur hópinn Ungviður, sem er nýtt Ungmennafélag SÍ (Skógræktarfélags Íslands). Við hvetjum alla áhugasama um að fylgjast með okkur þar sem við færum fréttir af viðburðum, gróðursetningum, fólki í listum sem vinnur með skógarafurðir og fallegt myndefni úr skógum Íslands,“ segir Hjördís.

„Ég sé mig auðveldlega geta unnið við skógrækt í framtíðinni en mikilvægi hennar mun einungis aukast á næstu áratugum. Það er ekki síst fólkið í skógræktinni sem laðar mann að en einstaklingar sem lifa og snúast í skógrækt er jarðbundið og fallegt fólk með hjartað á réttum stað og ég dáist að alúðinni sem það leggur í starfsemina.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson