Frá fyrsta verkefnisfundi LIBBIO. Evrópskir þátttakendur í garði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Mynd:…
Frá fyrsta verkefnisfundi LIBBIO. Evrópskir þátttakendur í garði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Mynd: Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Íslendingar taka þátt í 600 milljóna rannsóknarverkefni

Lupinus mutabilis er einær lúpínutegund frá Suður-Ameríku sem notuð hefur verið lengi í Andesfjöllunum til ræktunar fóðurs og matvæla. Landgræðslan tekur nú þátt í evrópsku þróunarverkefni þar sem kannað verður hvernig vinna má olíu, prótein og fóður úr lúpínunni eða nota hana til orkuframleiðslu. Hérlendis verður athugað hvort tegundin getur vaxið á rýru landi og nýst til uppgræðslu eða fóðurframleiðslu.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir verkefninu sem kallast LIBBIO og er sam-evrópskt þróunarverkefni um lífmassaframleiðslu og aðra úrvinnslu lúpínu. Evrópusambandið hefur veitt fimm milljóna evra styrk eða ríflega 600 milljónir íslenskra króna, til verkefnisins. Að verkefninu koma fjórtán aðilar í átta löndum, þar á meðal Landgræðsla ríkisins.

Sagt er frá þessu á vef Nýsköpunarmiðstöðvar. Þar kemur fram að Evrópusambandið hafi sett sér það markmið að draga úr vægi jarðolíu í hagkerfinu og vera betur sjálfu sér nægt um lífafurðir. Með LIBBIO-verkefninu vilji Evrópusambandið auka lífmassaframleiðslu af rýru landi og styrkja þar með lífhagkerfið án þess að nota verðmætt ræktarland. Á Íslandi sé mikið af mjög rýru landi og hér hafi alaskalúpínan dafnað um árabil.


Lupinus mutabilis er suður-amerísk tegund. Í bók sinni, Belgjurtabókinni, skrifar Sigurður Arnarson um þessa tegund að hún hafi ekki hlotið íslenskt heiti svo hann viti til. Viðurnefnið mutabilis merki breytilegur og vísi til breytilegs blómlitar. Kannski megi því kalla hana trúðalúpínu.

„Til eru gul, blá og bleik blóm og þau eru oft tvílit. Sennilega þrífst hún hreint ekki hér en er afar merkileg. Grasbítum er meinilla við hana og forðast hana. Því hefur hún verið notuð til að girða af matjurtagarða. Ef hún þrifist á Íslandi gæti hún jafnvel grætt upp land þrátt fyrir sauðfjár- og hrossabeit. Fræ hennar er betur liðið af jurtaætum en aðrir hlutar plöntunnar og er það meira að segja hæft til manneldis. Það er prótínríkt og er gjarnan búið til mjöl úr því í Andesfjöllunum. Tegundin  er einær en getur þó orðið 100 til 150 cm á hæð,“ skrifar Sigurður í Belgjurtabókinni.

Í frétt um LIBBIO-verkefnið á vef Nýsköpunarmiðstöðvar segir að nýlegar athuganir sýni að Lupinus mutabilis vaxi vel á meginlandi Evrópu og talið sé líklegt að einhver yrki hennar geti vaxið vel á Íslandi. Þar sem tegundin sé einær sé hún mjög ólík alaskalúpínu sem er fjölær. Suður-ameríska lúpínan virðist ekki vera ágeng á meginlandi Evrópu og  því séu litlar líkur á að hún verði það á Íslandi, en það verði kannað sérstaklega.

Í LIBBIO-verkefninu verður skoðað hvernig vinna megi olíu, prótein og fóður úr lúpínunni eða nota hana til orkuframleiðslu. Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar er próteinvinnsla til annarra nota en matvæla og orkuvinnsla, auk verkefnisstjórnunar. Á Íslandi verður áhersla lögð á að kanna möguleika lúpínunnar til vaxtar á rýru landi með það fyrir augum að nýta hana til uppgræðslu eða fóðurframleiðslu. Samstarfsnet evrópska lífmassaiðnaðarins styrkir verkefnið innan H2020-rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins.

Frekari upplýsingar eru á vef verkefnisins www.libbio.net

Texti: Pétur Halldórsson
Heimildir: Vefur Nýsköpunarmiðstöðvar og Belgjurtabókin