Efnilegur ungur fræsafnari, kampakátur með frærekil. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Efnilegur ungur fræsafnari, kampakátur með frærekil. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun á birkifræi hófst formlega í Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit fimmtudaginn 22. september. Um fimmtíu manns, fólk á öllum aldri, kom til að tína fræ og njóta útiveru í skóginum. Alls safnaðist um ein og hálf milljón birkifræja í góðri stemmningu og góðu haustveðri. 

Átakið fer nú fram í þriðja sinn í samvinnu við fyrirtæki, félög og einstaklinga um allt land. Með átakinu vilja Skógræktin og Landgræðslan virkja landsmenn til þátttöku í því markmiði stjórnvalda að breiða birkiskóglendi út á fimm prósent landsins fyrir 2030 en núverandi útbreiðsla er 1,5%. Mikilvægt er að ná góðu sambandi við ýmis félög um allt land, ekki síst skógræktarfélögin sem eru um sextíu talsins og hafa innan sinna raða um átta þúsund félagsmenn. Því var við hæfi að Skógræktarfélag Eyfirðinga riði á vaðið og byði fólki til fræsöfnunar í einum reita sinna. Fyrir valinu varð Garðsárreitur í Eyjafjarðarsveit sem einmitt var fyrsti starfsvettvangur félagsins eftir stofnun þess árið 1930. Þar voru einar síðustu birkiskógaleifar í gervöllum Eyjafirði sem félagið tók að sér að friða og breiða út.

Viðburðurinn í Garðsárreit tókst mjög vel í góðu haustveðri og haustlitir skörtuðu sínu fegursta í reitnum, ekki síst á birkinu sem var heiðgult og nóg af fræreklum á trjánum til að tína. Kristinn H. Þorsteinsson, verkefnastjóri fræsöfnunarátaksins, fræddi fólk um birki, söfnun á birkifræi, meðhöndlun á fræinu og sýndi líka hvernig sá má fræinu í potta og rækta eigin plöntur.

Alls komu um fimmtíu manns á öllum aldri í Garðsárreit til að tína og á eftir var boðið upp á ketilkaffi, safa og kleinur. Alls er slegið á að fræin sem söfnuðust á tveimur klukkutímum séu um hálf milljón talsins, vel þroskuð og efnileg. Í kjölfar þessa fyrsta viðburðar verður haft samband við skógræktarfélög um allt land og þau hvött til að bjóða upp á sambærilega viðburði. Þegar hafa verið ákveðnir viðburðir hjá nokkrum skógræktarfélögum sem kynntir verða á næstu dögum og vikum. Einnig er samstarf við Lionshreyfinguna og Kvenfélagasamband Íslands og munu aðildarfélög þeirra einnig láta til sín taka.

@birkifræ #birkifræ

Texti: Pétur Halldórsson