Landinn nýtur aðstoðar sérfræðinga Skógræktarinnar

Tveir sérfræðingar Skógræktarinnar, Lárus Heiðarsson skógfræðingur og Ólafur Eggertsson fornvistfræðingur aldursgreindu eikurnar á Skógarbala í Fljótsdal í skemmtilegu innslagi Landans í Sjónvarpinu sunnudaginn 4. desember. Lárus boraði í eitt trjánna og náði úr því kjarnasýni sem Ólafur greindi á Mógilsá.

Í kynningu á vef Ríkisútvarpsins segir:

Í landi Vallholts í Fljótsdal standa fimm stök tré á grænu túni og þarna hafa þau staðið lengur en elstu menn muna. Þetta eru eikurnar á Skógarbala - eða einstæðingarnir á Skógarbala eins og skáldið Gunnar Gunnarsson kallaði þær. Hér áður fyrr var þetta vinsæll áningarstaður og ferðamenn ristu gjarnan nöfn sín í börk trjánna. Þau hefur tíminn máð í burtu en eikurnar standa enn og eru af sumum talin með elstu trjám landsins.

Landinn skoðaði eikurnar á Skógarbala og reyndi að komast að því hvað þær eru gamlar með hjálp starfsmanna Skógræktarinnar.

Á Héraði er hefð fyrir því að kalla stór tré eikur. Eikurnar á Skógarbala eru í raun birkitré. Talið er að þær séu leifar af miklum skógi sem Jón Einarsson, bóndi á Víðivöllum, fékk dæmdan sér til eignar í hæstarétti á nítjándu öld „Þegar hann er búinn að vinna málið þá lætur hann höggva skóginn, nánast allan. Þetta ofbauð mönnum nú og hann fékk viðurnefnið skógníðingur," segir Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum sem hefur flygst með trjánum vaxa og dafna alla sína æfi. Þau mega nú muna sinn fífil fegurri

Þáttinn allan má sjá hér