Öll tré eiga uppruna sinn í litlu fræi.
Öll tré eiga uppruna sinn í litlu fræi.

Átta mánaða þroskaferli úr akarni í trjáplöntu

Breski vísindamaðurinn og ljósmyndarinn Neil Bromhall tók upp á átta mánuðum ferilmynd af því þegar akarn spírar og verður að lítilli eikarplöntu. Eikur verða ævagamlar og risastórar en spruttu allar af litlu fræi. Tré eru meðal undra náttúrunnar og án trjáa værum við mennirnir ekki til því trén áttu þátt í að gera andrúmsloftið og loftslagið á jörðinni lífvænlegt fyrir lífverur eins og okkur.

Þolinmæðisverk er að fylgjast með fræi spíra en nútímatækni hjálpar okkur í því efni sem öðrum. Ýmiss konar ljósmynda­bún­að­ur er búinn þeim möguleika að geta tekið ljósmyndir með ákveðnu millibili í langan tíma og sýnt okkur í fljótu bragði atburði sem gerast á löngum tíma. Slíkar myndatökur gætum við kallað ferilmyndir á íslensku en á alþjóðamáli er notað hugtakið time-lapse video.

Í myndbandinu hér fyrir neðan sjáum við átta mánaða „fæðingu“ eikartrés tekna saman í þriggja mínútna myndskeiði.

Myndskeiðið gerði breski vísindamaðurinn og ljósmyndarinn Neil Bromhall með hjálp myndavélar af gerðinni Nikon D300. Á vélinni hafði hann 55 millímetra nærlinsu með ljósopi f/2,8. Bromhall starfar í Oxford á Englandi og rekur þar vefinn Right Plants 4 Me, eins konar alfræðivef um plöntugreiningu. Vefur hans er líka fróðleiksnáma um hvernig koma má plöntum til.


Heillandi er að fylgjast með þroska eikar­innar á myndskeiðinu sem tekið var á átta mánuðum frá því í september og fram í apríl. Fyrstu myndirnar eru teknar neðan­jarðar og þar sjáum við hvernig akarnið byrjar að springa upp næstum rakleiðis eftir að því er sáð, klofnar því næst alveg í tvennt og losar sig við skelina. Þegar spír­an tekur að teygja sig upp á við í moldinni er sjónarhornið fært upp á yfirborðið og við fylgjumst með hvernig sáðplantan stækkar smám saman og tekur að mynda fyrstu lauf­blöðin.

En þótt litla tréð sé komið upp úr moldinni þurfum við að bíða í tuttugu ár eða svo eftir því að hún fari sjálf að þroska fræ svo hring­rásin geti hafist á ný. Sem betur fer þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur því þrátt fyrir mikla sókn mannskepnunnar í þá auðlind sem eikin er vaxa eikur enn víða og prýða ekki síst borgir og bæi víða um heim. Þeir miklu eikarskógar sem áður uxu vítt og breitt um Evrópu til dæmis eru að vísu að miklu leyti horfnir en víða er eikin ræktuð og sums staðar stækka eikarskógar á ný. Eik má finna í görðum og skógum á Íslandi þótt ekki séu þær margar enn sem komið er. Með hlýnandi loftslagi og réttu kvæmavali líður tegundinni betur og betur hérlendis og hver veit nema hér vaxi eikarskógar í framtíðinni. Þá gerist þetta kraftaverk sem fylgjast má með í myndbandi Bromhalls.


Einhver fallegasta eik sem vex á Íslandi. Tréð stendur við Dalsgerði á Akureyri og óx
líklega upp af fræi sem Jóhann Pálsson, grasafræðingur og þáverandi forstöðumaður
Lystigarðsins, kom með frá Svíþjóð um 1980. Myndin er tekin 2014.

Heimild: Mother Nature Network
Texti: Pétur Halldórsson