Katrín Ásgrímsdóttir og Þórgunnur Oddsdóttir ræða saman í gróðurhúsi hjá Sólskógum.
Katrín Ásgrímsdóttir og Þórgunnur Oddsdóttir ræða saman í gróðurhúsi hjá Sólskógum.

Rætt við Katrínu í Sólskógum í Landanum

„Það hefur orðið mikill samdráttur í ræktun á skógum. Eftir hrunið varð mikill samdrátt­ur og það hefur ekki komið aftur.“ Á þetta benti Katrín Ásgrímsdóttir í Sólskógum í mjög góðri umfjöllun Landans í Sjónvarpinu í gær.

Sólskógar selja mest af sínum skógar­plönt­um til skógarbænda á Norðurlandi og tals­vert á Vesturlandi og Vestfjörðum, svolítið á Suðurlandi og einnig mikið til skógræktar­félaga um allt land. Katrín á von á mjög fallegu sumri eftir góðan vetur.

Á vef Landans er heimsókninni í Sólskóga lýst á þessa leið:

Það er í nógu að snúast í gróðrarstöðvum landsins þessa dagana. Í Sólskógum í Kjarnaskógi hefur starfsfólkið haft nóg að gera við að undirbúa plöntusölu sumarsins og afgreiða skógarplöntur til skógarbænda.

„Við erum að rækta rúmlega helminginn af því sem er plantað út á landinu en það hefur orðið mikill samdráttur í ræktun á skógum eftir hrun. Þetta eru svona um ein og hálf milljón af skógarplöntum sem við erum að afhenda hér á hverju ári,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sólskóga. Hún segir að vorið lofi góðu.

„Gróðurinn kemur alveg einstaklega vel undan vetri, ég hef bara sjaldan séð annað eins. Ég held að þetta verði mjög fallegt sumar.“

Landinn fylgdist með vorverkunum í Sólskógum.