Þurrkar í Kaliforníu tefja fyrir því að skóglendi nái sér eftir skógarelda

 

 

 

 

Í Kootenay-þjóðgarðinum í Klettafjöllunum í suðaustanverðri Bresku-Kólumbíu eru vegsummerki eftir gríðarlegan skógareld. Hann átti sér stað árið 2003 og brunnu þá 17.000 hektarar skóga, en það er sambærilegt við um helming allra gróðursettra skóga á Íslandi. Það voru einkum stafafuruskógar sem uðru eldinum að bráð en einnig blágreni- og fjallaþinsskógar ofar í fjallshlíðunum.

Þegar ekið er um svæðið tíu árum seinna blasir eyðileggingin enn við, þar sem brunnir trjábolir eru mest áberandi í landslaginu tilsýndar. Nærmyndin er hins vegar allt önnur. Endurnýjun skóganna er víðast hvar komin vel á veg eftir þétta sjálfsáningu stafafuru sem nú er komin í mannhæð eða meira. Stafafura, og reyndar margar aðrar furutegundir, eru sérstaklega aðlagaðar því að geta sáð sér eftir skógarelda því könglarnir verja fræin sem í þeim eru fyrir eldinum, opnast síðan og dreifa fræunum. Á seinni stigum framvindu nema svo greni og þinur land á ný með sjálfsáningu frá stöku trjám sem lifðu eldinn af.

 

 

 

 

Seinna í ferðinni voru afleiðingar annars skógarelds skoðaðar við Angora sunnan við Tahoe-vatn í Kaliforníu. Þar brunnu um 2000 ha jeffreyfuruskógar árið 2007 ásamt 250 húsum. Sex árum seinna var land þar gróið grasi og smárunnum en lítið var um ungplöntur trjáa.

 

 

 

 

 Það var greinilegt víðar í skógum Kaliforníu að endurnýjun eftir skógarelda var döpur. Stafar það af þrálátum þurrkum undanfarinn áratug. Furuskógar þola yfirleitt vel langvarandi þurrka, en slíkir þurrkar auka jafnframt hættuna á skógareldum og ekki er víst að skógurinn endurnýi sig strax í kjölfarið, a.m.k. ekki fyrr en fer að rigna á ný.  

 

 

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson