Þrjú sóttu um starfið

Edda Sigurdís Oddsdóttir, jarðvegs­vist­fræð­ing­ur og sérfræðingur á Rannsókna­stöð Skógræktarinnar á Mógilsá, hefur verið ráðin forstöðumaður rannsónasviðs Skóg­ræktarinnar.

Edda lauk B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og prófi í kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla 1997. Árið 2002 varði hún doktorsritgerð sína í jarð­vegslíffræði frá Háskóla Íslands. Doktors­rannsókn sína vann hún í samstarfi við Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá, konunglega landbúnaðar­há­skól­ann í Kaupmannahöfn og háskólann í Helsinki þar sem Edda bjó og stundaði nám í þrjú ár. Íslenskur titill doktorsritgerðar Eddu er Útbreiðsla og tegundagreining svepprótar- og skordýrasníkjusveppa í jarðvegi og áhrif þeirra á skordýrabeit á trjáplönturótum.

Frá árinu 1997 hefur Edda starfað hjá Skógrækt ríkisins, nú Skógræktinni, sem aðstoðarsérfræðingur, sérfræðingur og verkefnisstjóri, átt samstarf við fjölmarga bæði innan lands og utan, hlotið rann­sóknar­styrki til margvíslegra verkefna og starfað með starfsfólki annarra stofnana, svo sem Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hún hefur fengið birtar fjölmargar vísindagreinar í innlendum og erlendum vísindaritum. Einnig hefur hún sinnt stundakennslu við LbhÍ frá 2006 og leiðbeint meistara- og doktorsnemum svo nokkuð sé nefnt.

Um starfið sóttu auk Eddu Bjarni Diðrik Sigurðsson skógfræðiprófessor og Ólafur Eggertsson fornvistfræðingur.

Eddu er óskað alls velfarnaðar í nýju starfi.

Texti: Pétur Halldórsson