Þessi húsgögn eftir Lars NIlsen urðu hlutskörpust í kosningu um besta lokaverkefnið  í skógtækni við…
Þessi húsgögn eftir Lars NIlsen urðu hlutskörpust í kosningu um besta lokaverkefnið í skógtækni við Skovskolen sem er hluti af Kaupmannahafnarháskóla.

Var sá eini sem seldi lokaverkefni sitt

Lars Nilsen, skógarhöggsmaður á Vöglum í Fnjóskadal, fékk hæsta lokaeinkunn nemenda í skógtækni sem brautskráðir voru nú í vor frá Skovskolen sem er hluti af Kaupmannahafnarháskóla. Við braut­skrán­inguna var smíðisgripur hans, lokaverkefni í viðar- og nýsköpunarfræðum, kosið besti gripurinn. Lars var eini nemandinn sem náði að selja lokaverkefni sitt.

Lars hefur starfað á Vöglum undanfarin misseri samhliða námi sínu en kom þangað upphaflega sem verknemi. Hann segist kunna svo vel við sig á Vöglum að hann vilji hvergi annars staðar vera. Honum er margt til lista lagt, listasmiður og útsjónarsamur að nýta efnivið sem ella yrði fleygt svo sem afganga, ólögulegt timbur og þess háttar. Úr þessu hefur hann búið til ýmsa nytjahluti sem eru í daglegri notkun á Vöglum.


Lokaverkefnið, stól og borð, smíðaði Lars einmitt úr afgöngum úr sögunarmyllu. Hann segir að fyrst sé að safna saman þeim afgöngum sem tiltækir eru og síðan að gera sér í hugar­lund hvað úr þeim geti orðið. Stóllinn og borðið vildihann að yrðu bæði falleg, notadrjúg og þægileg í notkun. Hann teiknaði ekkert á blað heldur varð „teikningin“ einungis til í kolli hans og þróaðist meðan á smíðinni stóð. Þannig finnst Lars skemmtilegast að vinna.

Að ljúka við gripina segir Lars að hafi kost­að töluverða vinnu. Leita þurfti að viðar­bútum sem virtust geta passað hverju sinni, saga þá til og pússa og loks að raða öllu saman. Verkinu lauk með köldum bjór við eldinn í kamínunni til að reyna gripina.

Gjörnýting hrá­efn­is­ins felst í því, segir Lars, að brenna síðustu afgöngunum svo engu þurfi að henda ónýttu. Þetta fallega og hugvitsamlega lokaverkefni hans varð hlut­skarp­ast í atkvæðagreiðslu sem efnt var til við hátíðarkvöldverð að afloknum braut­skráningardegi nú á dögunum. Lars var líka eini skógtæknineminn þetta árið sem seldi loka­verkefni sitt. Fyrir það fékk hann andvirði um 40.000 íslenskra króna.


Það er mikill fengur að hagleiksmanni eins og Lars í starfsmannahóp Skógræktar­inn­ar. Hann starfaði um margra ára skeið við að leggja og gera við koparþök í Dan­mörku og kann því til verka við margvísleg störf. Hann er líka þaulvanur vinnu í sögunarmyllu og kann því vel tökin á flettisöginni sem nýlega var komið upp á Vöglum.

Skógur.is óskar Lars til hamingju með árangurinn og óskar honum velfarnaðar í starfi hjá Skógræktinni.



Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Lars Nilsen