Samkvæmt Durban-yfirlýsingunni um skóga hafa sjálfbærir skógar mikilvægu hlutverki að gegna við að b…
Samkvæmt Durban-yfirlýsingunni um skóga hafa sjálfbærir skógar mikilvægu hlutverki að gegna við að binda enda á hungur í heiminum, bæta lífsskilyrði fólks og hamla gegn loftslagsbreytingum. Mynd: FAO

Efla verður fræðslu og umræðu um skóga í heiminum

Heimsbyggðin þarf að vita að skógar heimsins eru meira en bara tré. Í skógunum felast ómæld tækifæri sem geta skipt sköpum í baráttunni við hungur, baráttunni fyrir betra lífi fólks og baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta er niðurstaða fjórtándu heimsráðstefnunnar um skóga sem lauk í Durban í Suður-Afríku á föstudag. Í yfirlýsingu sem samþykkt var á ráðstefnunni er áhersla lögð á aukna fræðslu um skóga, fjárfestingu í menntun og eflda umræðu um mikilvægt hlutverk skóganna fyrir lífið á jörðinni.

Markmið þessarar stærstu skógarmálasamkomu heims á þessum áratug var að setja fram sýn um hvernig skógar og skógrækt skyldi líta út í heiminum árið 2050. Þá fimm daga sem ráðstefnan stóð var til umræðu sérstök yfirlýsing sem samþykkt var lokadaginn, Durban-yfirlýsingin um skóga heimsins fram til 2050. Þar er því lýst yfir að skógar skuli verða grundvallarþáttur í matvælaöryggi og auknum lífsgæðum jarðarbúa. Flétta þurfi skógum og trjám saman við annars konar landnýtingu eins og hefðbundinn landbúnað til að ráðast að orsökum skógareyðingar og átaka um land og jarðnæði. Því er enn fremur lýst yfir að skógar sem nytjaðir séu og ræktaðir með sjálfbærum hætti séu óhjákvæmilega meginvopn í baráttunni við loftslagsbreytingar. Stuðla verði að því að skógar bindi eins mikið kolefni og mögulegt er en geti um leið veitt aðra umhverfislega þjónustu og gæði.


Skógar eru ekki einungis mikilvægir fyrir fólkið sem í þeim býr heldur alla aðra jarðarbúa. Mynd: FAO.

Fjárfesting og samstarf skiptir sköpum

Í yfirlýsingunni eru tíundaðar aðgerðir sem nauðsynlegt sé að ráðast í til að sú sýn sem sett er fram verði að veruleika. Þar á meðal er lögð áhersla á aukna fræðslu og menntun, umræðu og upplýsingagjöf, rannsóknir og atvinnusköpun, einkum að skapa ný störf fyrir ungt fólk í skógum og skógartengdum greinum.

Enn fremur er lögð áhersla á nauðsyn þess að fólk vinni saman á sviði skógræktar, landbúnaðar, efnahagslífs, orku, vatns og annarra greina en einnig að frumbyggjar og afmörkuð samfélög fólks á hverju svæði verði virkjuð með í þessu starfi.

Á vef heimsráðstefnunnar, er haft eftir Tiina Vähänen, sem stýrir skógmælingasviði FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, að Durban-yfirlýsingin um skóga endurspegli þau margbreytilegu sjónarmið og fjölþættu reynslu þátttakenda á ráðstefnunni sem gat af sér lausnirnar sem fram komu. Næstum 4.000 fulltrúar frá 142 löndum sátu ráðstefnuna, fulltrúar almennings, fjölþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka, háskóla og einkafyrirtækja en einnig um 30 ráðherrar og aðstoðarráðherrar svo dæmi séu nefnd.

Skilaboð um sjálfbærnimarkmiðin

Heimsráðstefnan undirstrikaði að skógar skiptu sköpum til að ná mætti sjálfbærnimarkmiðunum 17 sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér. Þetta eru meginskilaboð ráðstefnunnar til fundar SÞ um sjálfbæra þróun sem haldin verður í New York síðar í þessum mánuði. Þar á að setja löndum heimsins þróunarmarkmið fram til ársins 2030.

Fimmtánda sjálfbærnimarkmiðið tekur á nauðsyn þess að skógareyðing verði stöðvuð í heiminum og skógar ræktaðir og nýttir með sjálfbærum hætti. En skógar hafa líka hlutverk ef takast á að ná mörgum hinna markmiðanna sextán. Þar eru nefnd sérstaklega markmiðin um að binda enda á fátækt í heiminum, tryggja matvælaöryggi, stuðla að sjálfbærum landbúnaði og gera sjálfbæra orku öllum aðgengilega.

Skilaboð um loftslagsbreytingar

Á heimsráðstefnunni í Durban voru líka send skilaboð til COP-fundarins í París í desember þar sem stefnt er að því að undirrita nýjan rammasamning á vegum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Loftslagsbreytingar ógni lífi á jörðinni, ekki síst skógum jarðarinnar og fólkinu sem í skógunum býr eða treystir á þá sér til framfærslu. Samt sem áður felist í loftslagsbreytingunum ný tækifæri á sviði skóganna. Horfur séu á að fjárfesting í skógum aukist og stuðningur stjórnmálamanna við betri auðlindastjórnun í skógum fari vaxandi.


Í markmiðum sem samþykkt voru undir lok ráðstefnunnar er nánar kveðið á um hvernig taka megi á ýmsum þeim viðfangsefnum sem við blasa. Þar er meðal annars rætt um upplýsingagjöf og umræðu um skógarmálefni, að bæði verði að fræða verði heimsbyggðina um þær hættur sem steðja að og þær leiðir sem færar eru til varnar. Leggja verði fé, þekkingu og vinnu í að þróa og efla upplýsingamiðlun um skóga, meðal annars til þess að upplýsa forystufólk í löndum heimsins um skóga og skógarmálefni. Nauðsynlegt sé að leiðtogar og fólk sem mótar stefnu á ýmsum stigum samfélagsins sé vel með á nótunum og kunni skil á öllum þeim fjölmörgu kostium sem skógarnir hafa og þeirri margvíslegu þjónustu sem þeir veita. Þannig sé líklegra að staðinn verði vörður um skógana til framtíðar og að komandi kynslóðir geti áfram notið þess sem skógarnir gefa okkur.

Skógar og aðgerðaráætlun um vatn

Loks er vert að geta þess að á heimsráðstefnunni um skóga í Durban var líka lögð fram alþjóðleg aðgerðaráætlun til fimm ára um skóga og vatn. Markmið hennar er að viðurkennt verði það mikilvæga hlutverk sem tré og skógar hafa í heilbrigðri hringrás vatnsins á jörðinni. Skógar séu ein stærsta uppspretta ferskvatns á jörðinni og sjá verði til þess að sú auðlind verði vernduð og nýtt með sjálfbærum hætti.

Heimsráðstefnan um skóga, The World Forestry Congress, er haldin á sex ára fresti. Yfirskrift ráðstefnunnar í Durban var Skógar og fólk: Fjárfesting í sjálfbærri framtíð.  Lýðveldið Suður-Afríka var gestgjafinn að þessu sinni og þetta var í fyrsta sinn sem heimsráðstefnan fer fram í Afríku frá því að til hennar var stofnað árið 1926. Við lok ráðstefnunnar í Durban var óskað eftir áhugasömum löndum til að halda ráðstefnuna 2021. Tvö lönd buðu sig fram, Suður-Kórea og Rússland, en eftir er að sjá hvort þeirra verður fyrir valinu.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Frétt á vef FAO