Alþjóðlegt ár skóga á Íslandi stóð í haust fyrir samkeppni um hönnun duftkers úr íslenskum við. Um helgina voru úrslit í keppninni tilkynnt og verðlaun afhent.

Bálförum á landsvísu hefur fjölgað verulega og er nú svo komið að í Reykjavík eru fjögur af hverjum tíu líkum brennd fyrir útför. Í kjölfarið hefur eftirspurn eftir fallegum og umhverfisvænum, helst íslenskum, duftkerjum aukist. Íslenski viðurinn er sérlega vistvænn og að margra mati einstaklega viðeigandi sem umgjörð um síðustu jarðnesk ummerki okkar. Keppnin var öllum opin, útlitið algjörlega frjálst og eina skilyrðið að duftkerfið væri gert úr íslenskum við. Fjöldi fallegra kerja barst í keppnina og má sjá dómnefnt fást við það vandasama verk að velja sigurvegara á myndinni hér að ofan.

Veitt voru vegleg verðlaun fyrir þrjú bestu duftkerin:

frett_29112011_1

1. verðlaun: Karl V. Dyrving

Viður: birki & reyniviður í krossmarki

Umsögn dómnefndar:
Þetta er fallegt form og frábært handbragð.
Hentar vel til að nýta grisjunarvið.
Útfærsla á lokun kersins er skemmtileg.
Fjölbreyttir möguleikar við samsetningu á viði og þ.a.l. mismunandi litbrigðum í viði.
Getur staðið með eða án krossins, en hann kemur fallega út, líkist vatnsmerki.frett_29112011_2

2. verðlaun: Ólafur Sveinsson

Viður: reynir

Umsögn dómnefndar:
Hér er á ferðinni heillandi hugmyndafræði og frumleg nýting á reyniviði. Náttúrulegt form og áferð viðarins fær að njóta sín og falleg tengsl eru á milli aldurs stofnsins og fullorðins-,barna- og fósturkerja.
Auðvelt í framleiðslu, hægt er að framleiða kerin eingöngu með handverkfærum.
Umhverfisvænt og mjög íslenskt.
Enginn aðskotahlutur.
Nýtir viðinn vel.
Hvert stykki einstakt.


frett_29112011_33. verðlaun: Sveinbjörn Gröndal

Viður: lerki og birki


Umsögn dómnefndar:
Formið sem slíkt er valið. Stílhreint og einfalt.
Hugmyndin hentar vel til fjöldaframleiðslu og auðvelt er að nota mismunandi viðartegundir.
Býður upp á auðvelda notkun mismunandi tákna eftir trúarbrögðum. Hægt sjá táknin fyrir sér ýmist greypt í viðinn eða áfest.
Hagkvæmt í framleiðslu.
Skrúfur sem notaðar eru til lokunar eru ekki vistvænar. Úr því mætti bæta með annarri lausn.

Frekari upplýsingar má finna á vef Alþjóðslegs árs skóga á Íslandi og fleiri myndir af kerjunum á Flickr-síðu.