Á Markarfljótsaurum er tilraun með alaskaösp. Á nokkrum blettum í tilrauninni hefur lúpína sáð sér inn í tilraunina og athygli vakti að á þessum blettum hefur öspin sloppið við saltskemmdir frá 1. september storminum. Myndin sem tekin var fyrir tæpri viku sýnir klóninn Súlu í þakningartilraun frá 1992 á Markarfljótsaurum. Eins og sést vel af myndinni, halda blöð asparinnar betur græna lit sínum ef aspirnar standa í alaskalúpínu (sést í röðinni, bæði öspinni sem er næst myndavélinni og fjærst). Ekki er ljóst hvað veldur því að aspir sem standa í lúpínu sluppu við saltskemmdir. Vitað er að þær eru í betra næringarástandi, sér í lagi hvað varðar köfnunarefni og fosfór, en hinar sem standa á berum aurnum. Lúpínan bætir ástand jarðvegs mjög fljótt við að hún bindur köfnunarefni úr andrúmslofti og losar um fosfór í jarðvegi. Innihald næringarefna í laufblöðum aspanna sem standa í lúpínunni er að öllum líkindum hærra en hinna sem ekki njóta lúpínunnar og því flæði saltið síður í gegn um himnur laufblaðanna en hjá hinum sem skortir köfnunarefni og fosfór. Hitt gæti líka verið að rakaskilyrði í jarðveginum þar sem lúpínan er séu betri og því meiri safaspenna í laufi þeirra svo saltlöðrið streymir síður inn í þau. Ekki komumst við að neinni niðurstöðu nú og hér, en ljóst er að rannsókna er þörf til að komast að hinu sanna varðandi þetta fyrirbæri.