Verður Amason-regnskógurinn Amason-eyðimörkin?

Á degi jarðar er fólk um allan heim hvatt til að íhuga eyðingu skóglendis í heiminum. Um helmingur alls skóglendis á jörðinni hefur horfið undanfarna öld og enn er sorfið að regnskógunum. Í áhrifaríku myndbandi bandaríska rapparans og aðgerðarsinnans Prince Ea er hugleitt hvernig það væri ef ekki væri lengur talað um Amason-regnskóginn heldur Amason-eyðimörkina.

Íslenski málshátturinn „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ kemur ósjálfrátt upp í hugann þegar horft er á myndbandið. Jafnvel þótt löngu sé ljóst hvert hlutverk skóga er í vistferlum jarðarinnar gengur of hægt að stöðva skógareyðinguna, sérstaklega í regnskógum hitabeltisins sem bæði fóstra fjölbreytilegustu vistkerfi jarðarinnar og gegna mikilvægu hlutverki við að halda hlutfalli koltvísýrings í lofthjúpnum í jafnvægi og viðhalda veðurkerfum auk þess sem þeir eru heimkynni og uppspretta lífsviðurværis hundraða milljóna manna.

Prince Ea er fæddur 1988 í St. Louis. Hann lauk B.A.-prófi í fornleifafræði frá háskólanum þar í borg 2011. Tónlistina notar hann til að koma á fram færi ýmiss konar boðskap um betri heim og meðal annars hefur hann lagt áherslu á að bæta ímynd menntunar og visku. Hann stofnaði hreyfingu sem kallast Make 'SMART' Cool. SMART stendur fyrir Sophisticating Millions and Revolutionizing Thought. Prince Ea vill siðbæta milljónir manna og umbylta hugsun fólks.

Í myndbandinu SORRY skefur Prince Ea ekki utan af hlutunum heldur segir þá umbúðalaust. Skilaboðin eru skýr. Fyrir hönd ímyndaðs mannkyns í framtíðinni þar sem Amason er eyðimörk biður hann jörðina fyrirgefningar á því að við skyldum einblína á gróða frekar en fólk, stjórnast af græðgi fremur en þörfum, að við skyldum nota jörðina eins og krítarkort með ekkert greiðsluhámark og kalla alla eyðinguna framfarir. Síðan eggjar hann kynslóðina sem nú er að taka við til dáða. Hún sé grasrótin sem breytingarnar verði að spretta upp af. Við erum náttúran og ef við svíkjum náttúruna svíkjum við okkur sjálf.

Að myndbandinu loknu segir Prince Ea frá kveikjunni að texta þess. Hann vekur athygli á því að skógareyðingin stjórnast af peningagræðgi. Peningar séu ástæða skógareyðingarinnar en þegar trén verði horfin og árnar þornaðar upp komist mennirnir að því að þeir geti ekki borðað peninga. Hann hvetur fólk til að fylkja sér saman með samtökunum Stand for Trees og snúa vörn í sókn fyrir skóga jarðarinnar. Á vef samtakanna er hægt að kaupa tiltekið magn koltvísýrings sem bundinn er í skógum hitabeltislanda. Eitt tonn kostar tíu dollara. Meðalfólksbíll á Íslandi losar tvö til þrjú tonn af koltvísýringi á hverju ári út í andrúmsloftið.

Hérlendis höfum við ekki ósvipað verkefni sem kallast Kolviður. Þar getur fólk keypt sér kolefnisbindingu fyrir það sem losað er. Auðvelt er að reikna út með reiknivél Kolviðar hvað einkabíllinn eða vinnubíllinn losar í tonnum á einu ári og hversu mörg tré þarf að gróðursetja til að binda þá losun. Stöndum með trjám á degi jarðar!

Myndbandið SORRY með rapparanum Prince Ea

Texti: Pétur Halldórsson