Birki gróðursett á Vatnsendahæð á útivistar- og fjölskyldudegi Skógræktarfélags Kópavogs. Félagið he…
Birki gróðursett á Vatnsendahæð á útivistar- og fjölskyldudegi Skógræktarfélags Kópavogs. Félagið heldur slíkan viðburð í dag á degi íslenskrar náttúru og víða um landið eru alls kyns viðburðir í tilefni dagsins, meðal annars birkifræsöfnun. Ljósmynd: Kristinn H. Þorsteinsson

Á degi íslenskrar náttúru í dag, 16. september, verða viðburðir á nokkrum stöðum í skógum landsins. Eftir tæpa viku hefst formlega landsátak um söfnun og sáningu á birkifræi og fólk getur tekið forskot á sæluna í tilefni dagsins og safnað birkifræi sem nú hefur víða náð nægum þroska.

Skógræktarfélag Kópavogs heldur dag íslenskrar náttúru hátíðlegan með því að halda útivistar- og fjölskyldudag í samstarfi við Kópavogsbæ. Þarer hvatt til hreyfingar, samveru og skógar- og náttúruupplifunar. Dagskráin hefst kl 17 þar sem lagt verður af stað fræðslusetrinu í Guðmundarlundi að Leiðarenda 3 og haldið út á Vatnsendaheiði og hugað að gróðri og sögu. Á heiðinni verður horft til framtíðar og gróðursettar trjáplöntur í þágu aukinna lífsgæða, eins og segir í frétt á vef félagsins.

Lionsklúbburinn Sif tekur líka forskot á sæluna í landsátaki um söfnun og sáningu á birkifræi sem hefst formlega 22. september. Klúbburinn býður öllum sem vilja, stórum og smáum, í birkifræsöfnun í Kristnes- og Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit á degi íslenskrar náttúru. Pappaöskjur til að safna í fræi verða afhent á planinu við Hælið frá kl. 17 og þeim svo skilað aftur á sama stað fyrir kl. 19. Hægt verður að kaupa hressingu á Hælinu á þessum tíma, til sölu verður hunang úr Reykhúsaskógi og fleira. Meira hér.

Ýmsir viðburðir eru á dagskrá víða um land í tilefni dagsins. Sem fyrr segir er fram undan átak um söfnun og sáningu á birkifræi í samstarfi Skógræktarinnar og Landgræðslunnar við fólk, félög og fyrirtæki um allt land. Lesa má nánar um átakið „söfnun birkifræs“ á vefnum birkiskogur.is og það verður nánar kynnt í næstu viku.

@birkifræ #birkifræ

 Texti: Pétur Halldórsson