Sjálfbær nýting, gjöfulir skógar

Skógar veita margvísleg félagsleg og efnahagsleg gæði. Þeir gefa mat, orku og skjól, til dæmis, nokkuð sem við þurfum öll. Til þess að skógarnir geti áfram veitt okkur þessi gæði þurfum við að nýta þá með sjálfbærum hætti. Þetta eru skilaboð FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í alþjóðlegri viku skóga.

Alþjóðleg vika skóga stendur nú yfir á vegum FAO og felst í því að haldnir eru ýmsir fundir og viðburðir sem tengjast skógum og skógarnytjum auk þess sem vakin er athygli á ýmsum skógarmálum. Meðal annars er haldinn í Rómaborg einn af árlegum fundum COFO, skógaráðs FAO (Committee on Forestry). Þar er rætt um virði skóganna fyrir samfélagið og efnahagslífið í samræmi við þema vikunnar. Þetta er í fjórða sinn sem COFO-fundur er haldinn í sem hluti af alþjóðlegu skógarvikunni. Meiningin með alþjóðlegri skógarviku er að koma á framfæri nýjustu uppgötvunum og þekkingu á sviði skógarmála og vekja athygli á stóráföngum og afrekum sem náðst hafa.

Meðal þeirra sem tala á fundinum í Róm er sænski sagnfræðingurinn Anna Sténs sem situr í sendinefnd Svía á fundinum. Anna starfar við háskólann í Umeå og í erindi sínu segir hún frá því starfi sem unnið hefur verið í Svíþjóð við að máta samfélagsleg gildi við skógarnytjarnar í landinu. Almannaréttur og eignarréttur er meðal þess sem Anna hugar að í rannsóknum sínum og hvernig þessum þáttum er beitt í sambandi við skóga. Dæmi um mál sem koma ítrekað upp í athugunum hennar eru berjatínsla, ásýnd skóga, útivist og stórtækar skógarnytjar þar sem t.d. er ruddur skógur á stórum svæðum í einu. Anna dvaldi fyrir skömmu hálft ár í Kanada þar sem hún kynntist því hvernig Kanadamenn hafa unnið að því að flétta félagslegum gildum inn í skipulagningu skógræktar og skógarnytja. Þetta ætlar hún að nýta sér ásamt fleiru til að skoða hvaða skref Svíar gætu tekið í þessum efnum til að koma fagurfræðilegum gildum betur að í skógum og halda í skóga sem bjóða upp á aðlaðandi umhverfi.

Á COFO 22 fundinum verður farið yfir ástand skóga heimsins, sérstaklega með tilliti til hlutverks þeirra fyrir samfélög manna og efnahagslíf, til dæmis hvernig skógar hafa áhrif á tekjur fólks og atvinnumarkaðinn en líka á þætti sem snerta eignarrétt og nýtingarrétt, orku úr skógarafurðum, nýtingu trjáviðar til smíði húsa og nytjahluta og þess háttar. Í þessu samhengi verður hugað að leiðum sem stjórnsýslan getur farið til að ýta undir sjálfbæra framleiðslu og neyslu, aðgengi að auðlindum, mörkuðum og fjármagni, hvernig deila má afrakstrinum sem best og hvernig verð er metið á framleiðsluvörum úr skógarafurðum og þjónustu skógargeirans.

Það þykir gjarnan vanmetið með hversu fjölbreytilegum hætti skógar leggja til sjálfbærrar þróunar. Þetta gerir að verkum að skógarnir eru ekki alltaf teknir með í reikninginn þegar horft er til framtíðar og skipulagt hvert skuli stefna. Með COFO 22 gefst tækifæri fyrir aðildarlöndin til að huga að leiðum til að gera lýðum ljóst hið mikla framlag skóganna til þróunar samfélaga um allan heim og að tryggja að vitneskjan um þetta rati inn á borð til þeirra sem vinna að gerð alþjóðlegra sáttmála. Þar á meðal er sú vinna sem fram undan er við ný alþjóðleg markmið um sjálfbæra þróun eftir árið 2015 og endurskoðun alþjóðasamnings um skóga á ellefta þingi skógaráðs Sameinuðu þjóðanna, UNFF, sem haldið verður á næsta ári.

Á fundinum í Róm verður líka rætt um hvernig gengið hefur að vinna með fyrri ákvarðanir í þessum efnum og hvað ný stefnumörkun FAO felur í sér um áherslur í skógræktarmálum. Sérstaklega verður litið til loftslagsbreytinga, REDD-verkefnis Sameinuðu þjóðanna um kolefnislosun vegna skógareyðingar, hugað verður að norðlægum skógum og skógum á þurrkasvæðum.

Texti: Pétur Halldórsson