Afhending trjáplantna til þátttakenda í Hekluskógaverkefninu hófst í byrjun maí. Þá voru frystar plöntur af birki og reyniviði afhendar til þátttakenda í Hekluskógaverkefninu sem nú eru orðnir 136. Fyrst í stað verða gróðursettar plöntur sem geymdar voru í frysti og þegar líður á maí verða plöntur afhentar hefðbundnar bakkaplöntur. Í vor verða gróðursettar rúmlega 210 þúsund plöntur og í haust 55 þúsund. Er þetta um helmingi minna en í fyrra, en ríkisframlög til Hekluskóga lækkuðu um helming í fyrra og um 8% frá 2009-2010. Þrátt fyrir þessa lækkun verður verkefninu haldið áfram af fullum krafti og í ár verður meiri áhersla lögð á áburðargjöf á eldri gróðursetningar.

Eitt af mikilvægustu verkefnum vorsins hjá landeigendum er að líta eftir gróðursetningum síðustu ára. Þarf að ýta niður frostlyftum plöntum og bera áburð á þær. Nánari upplýsingar:

Ýmsir hópar sjá um gróðursetningu í Hekluskóga auk landeigenda, t.d. íþróttafélög af Suðurlandi sem ná sér í sértekjur með gróðursetningunni. Á meðfylgjandi mynd sést stoltur hópur 3. flokks knattspyrnudeildar UMF Selfoss eftir að hafa gróðursett rúmlega 11.000 trjáplöntur við Reykholt í Þjórsárdal. 


Mynd og texti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga