Nú er genginn í garð sá árstími sem jafnan er notaður til að fella jólatré. Starfsmenn Skógræktar ríkisins á Hallormsstað, í Vaglaskógi, Skorradal, Haukadal og Þjórsárdal eru farnir að undirbúa fellingu eða þegar byrjaðir að fella fyrstu jólatrén í ár.

Fyrst eru stærri tré felld þ.e.a.s. tré sem prýða eiga bæjartorg, verslunarmiðstöðvar og fleiri svæði utanhúss. Þegar er farið að velja jólatré fyrir stofur landsmanna og verður hafist handa við að fella þau á næstu dögum.

Árlega selur Skógræktin um 150 stór jólatré til notkunar utanhúss, en á milli 3 og 4 þúsund tré eru seld til íslenskra heimila. Sala á ?stofutrjám? hefur farið minnkandi undanfarin ár, en rauðgrenið íslenska á í samkeppni við danskan normannsþyn sem er mun barrheldnari tegund og þykir því henta betur sem jólatré.

Íslenskur fjallaþynur og fura eru barrheldnar tegundir, en ekki til í nægu magni enn sem komið er. Hjá Skógræktinni er unnið að því að byggja þær tegundir frekar upp og á hlutur barrheldinna íslenskra trjáa því eftir að aukast í framtíðinni.

Á næstu dögum fara jólatré frá Skógrækt ríkisins því að prýða stræti og torg og til gamans má geta þess að jólatrén í Kringlunni og Smáralind eru jafnan íslensk tré frá Skógræktinni.