Á myndinni eru nemendur í 3. og 4. bekk í Waldorfskólanum Lækjarbotnum. Nöfn þeirra eru frá vinstri:…
Á myndinni eru nemendur í 3. og 4. bekk í Waldorfskólanum Lækjarbotnum. Nöfn þeirra eru frá vinstri: Stella, Kría, Edda, Nóah, Benedikt, Úlfur, Birkir, Óskar. Þá eru á myndinni Hafdís Hrund Gísladóttir, kennari í Waldorfskólanum, Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, og Hrefna Einarsdóttir frá Skógræktarfélagi Kópavogs. Ljósmynd: kopavogur.is

Fyrsta sáningin í átakinu sem nú stendur yfir með þjóðinni um söfnun og sáningu birkifræja fór fram föstudaginn 25. september. Sáð var í landi Kópavogs í Lækjarbotnum. Nemendur í 3. og 4. bekk í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum tóku sáninguna að sér ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, og fulltrúum aðstandenda verkefnisins.

Landsöfnun birkifræja var hleypt af stokkunum 16. september undir forystu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Kópavogsbær er meðal þeirra sem hafa komið til samstarfs við verkefnið. Fræi sem safnast á höfuðborgarsvæðinu verður sáð í örfoka land í Selfjalli í Lækjarbotnum.

Almenningi var boðið að taka þátt í sáningu birkifræs á laugardaginn var, 26. september, og aftur verður biðlað til almennings að koma og dreifa fræi laugardaginn 3. október klukkan 11. Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sjá um þessa viðburði. Fánaborg blasira við vegfarendum sem ætla að taka þátt í sáningunni þannig að afleggjarinn á ekki að fram hjá áhugasömum. Birkisáningin stendur frá 11.00 til 14.00.

Áfram heldur líka átakið með þjóðinni, að safna og sá birkifræi, og liggja söfnunaröskjur frammi í Bónusverslunum þar sem einnig má skila fræinu í sérmerktar tunnur á vegum Terra. Upplýsingar um verkefnið og hvernig á að safna fræinu er að finna á vef verkefnisins, birkiskogur.is, og á Facebook-síðunni Söfnum og sáum birkifræi.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson