Fyrir um viku var haldið Lesið í skóginn námskeið á Akureyri í samvinnu við Handverkshúsið. Þátttakendur voru frá Ólafsfirði, Sauðárkróki og Akureyri. Að venju var tálgað með hníf og exi í ferskt efni. Farið var í grunnatriði tálgutækninnar og unnið með ösp, víði, furu og birki. Fjallað var um helstu eiginleika einstakra tegunda og viðfangsefnin valin með tillti til þess og notagildis.

Á myndinni sést Gunnar Ásmundsson frá Ólafsfirði tálga sér sleif úr ösp en hann taldi nauðsynlegt að eiga eldhúsáhöld unnin úr íslensku efni í þeirri baráttu sem framundan er við endurreisn efnahagskerfisins. Hann var ekki í vafa um að hann héldi áfram að tálga í bústaðnum sínum í Dölunum, þar sem hann ætti mikið af góðu tálguefni.

Mynd og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins