Bréfþurrkur og salernispappír er víða til óþrifnaðar á afviknum stöðum með auknum ferðamannastraumi.…
Bréfþurrkur og salernispappír er víða til óþrifnaðar á afviknum stöðum með auknum ferðamannastraumi. Mælast þyrfti til þess við ferðafólk að það hafi við höndina poka undir pappírinn og taki með sér til förgunar.

Dagur íslenskrar náttúru er í dag

Vaxandi óþrifnaður er í skógum landsins vegna skorts á almenningssalernum. Pokar undir skeinibréfin gætu dregið úr þessum vanda. Skógræktin vekur athygli á vandanum í tilefni dags íslenskrar náttúru.

Eftir því sem ferðafólki fjölgar þarf að bæta ýmiss konar aðstöðu en í þessum efnum höfum við Íslendingar ekki haldið í við þróunina. Víða vantar almenningssalerni og því þarf fólk að grípa til sinna ráða þegar náttúran kallar. Helst er þá leitað á afvikna staði og auðveldast er að finna næði í skógi.

Fyrir þessu hafa skógareigendur á Íslandi fengið að finna, meðal annars Skógræktin sem hefur umsjón með þjóðskógum landsins, skógum í eigu þjóðarinnar. Þar sem ferðamannastraumur er mestur og auðvelt að komast inn í skóginn má nú víða rekast á staði þar sem hvítar skellur setja mark sitt á skógarbotninn. Fólk gerir þarfir sínar en skilur eftir pappírinn.

Hvernig má leysa þennan vanda? Auðvitað þarf að byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólk og finna leiðir til að reka snyrtihús með salernum svo sómi sé að og fjárhagur leyfi. Slík aðstaða verður þó ekki byggð upp alls staðar og því er jafnframt rétt að biðla til ferðafólks að þrífa upp eftir sig. Vel hefur gengið á síðari árum að fá hunda­eigendur til að þrífa upp eftir hunda sína og eru seldir til þess gerðir pokar í verslunum. Ef til vill ætti að selja ferðafólki slíka poka einnig, mælast til þess að þeir séu notaðir þar sem fólk kemst ekki á salerni og fleygt í næstu ruslatunnu. Sumum kann að þykja nóg að setja pappírinn í poka enda er hitt áburður fyrir gróðurinn. Misjafnar skoðanir kunna þó að vera á því.

Skógræktin beinir þessari hugmynd til ferðaþjónustunnar og hins opinbera sem sér um skipulag ferðamála og stýrir uppbyggingu á ferðamannastöðum. Skógurinn í Höfða á Héraði er dæmi um stað sem fólk notar til að gera þarfir sínar. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri tók myndir þar nú í vikunni sem segja meira en mörg orð.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þröstur Eysteinsson