Rafbíll aðstoðarskógarvarðarins á Vöglum í hleðslu við skemmuna í starfstöð Skógræktarinnar. Mynd: B…
Rafbíll aðstoðarskógarvarðarins á Vöglum í hleðslu við skemmuna í starfstöð Skógræktarinnar. Mynd: Benjamín Örn Davíðsson

Tenglar komnir upp á Vöglum og Akureyri

Tenglar fyrir rafbíla hafa verið settir upp á starfstöðvum Skógræktarinnar á Norður­landi. Staur var settur upp við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri í dag og að sjálfsögðu er hann úr lerki frá Vöglum í Fnjóskadal.

Skógrækt er ein öflugasta leiðin sem Ís­lendingum standa til boða til að standa við skuldbindingar sínar í Parísar­sáttmálanum. Koltvísýringsbinding með skógrækt er sérstaklega auðveld á Íslandi þar sem landrými er nægilegt og mikil tækifæri til að græða upp land með skógi og ná þar með mörgum umhverfismarkmiðum í einu, stöðva kolefnislosun frá auðnum, klæða land gróðri, búa til skógarauðlind og binda koltvísýring.


En Skógræktin vill gera fleira en að binda koltvísýring. Stofnunin vill einnig leggja sitt til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsa­lofttegunda. Nú er í undirbúningi að endur­nýja bílaflota stofnunarinnar og verður hug­að sérstaklega að því að kaupa sparneytna bíla og vistorkubíla þar sem því verður við komið. Einn starfsmaður Skógræktarinnar á Norðurlandi, aðstoðarskógarvörðurinn Benjamín Örn Davíðsson, hefur nú þegar eignast rafbíl og notar hann til að komast til vinnu í Vaglaskógi frá heimili sínu í Eyjafjarðarsveit. Þá er gott að geta stungið bílnum í samband á vinnustaðnum til að alltaf sé næg raforka á geymunum.

Í gær kom Benjamín í Gömlu-Gróðrar­stöð­ina færandi hendi með myndarlegan lerkistaur úr Vaglaskógi sem borað hafði verið á gat og söguð rás fyrir rafmagns­kapal. Í dag var tiltektar- og framkvæmdadagur í Gömlu-Gróðrarstöðinni og þá var staurnum komið fyrir við bílastæði hússins. Rafmagnskapall var dreginn í ídráttarrör sem lagt var í jörð á liðnu sumri um leið og dren- og frárennslislagnir frá húsinu voru endurnýjaðar.

Tengillinn er nú kominn upp og hægt að stinga rafbíl í samband. Hver veit nema slíkir staurar úr íslensku lerki fari nú að stinga upp kollinum hér og þar. Nægur er efniviðurinn. Þegar slík aðstaða er komin upp verður auðveldara fyrir fólk að taka það skref sem þarf til að skipta hefðbundnum bensín- eða díselbíl út fyrir rafbíl og minnka þar með kol­tvísýrings­losun þjóðarinnar.



Texti: Pétur Halldórsson