Veruleg breyting hefur orðið á gróðri í Haukadalslandi frá því að Skógræktin hóf þar uppgræðslu og s…
Veruleg breyting hefur orðið á gróðri í Haukadalslandi frá því að Skógræktin hóf þar uppgræðslu og skógrækt fyrir 85 árum. Náttúrleg útbreiðsla birkis er þar líka mikil eins og annars staðar þar sem land er tekið til skógræktar. Myndataka: Daði Björnsson/Loftmyndir ehf.

Hefur neikvæð áhrif á ásýnd og landslag segir Skipulagsstofnun

Fyrirhugað framkvæmdasvæði Brúarvirkjunar í Tungufljóti í Bláskógabyggð einkennist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin myndi hafa neikvæð áhrif á ásýnd og landslag.

HS Orka lagði í febrúar fram frummatsskýrslu um Brúarvirkjun til athugunar hjá Skiuplagsstofnun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í niðurstöðu sinni telur stofnunin að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess miðað við núverandi aðstæður. Svæðið sé að mestu leyti ósnortið og einkennist af Tungufljóti og vel grónum bökkum þess enda áin lindá sem sjaldgæfar séu í heiminum.

Bent er á að ef af fyrirhugaðri virkjun verður muni svæðið einkennast af mismumfangsmiklum mannvirkjum og verulega skertu rennsli í Tungufljóti á um þriggja kílómetra löngum kafla. Mest verði neikvæð sjónræn áhrif á frístundabyggð í nágrenninu og þá ferðamenn sem leggja leið sína upp með fljótinu. Gróskumikið votlendið og skóglendið á svæðinu njóti verndar náttúruverndarlaga og forðast skuli að raska slíku nema brýn nauðsyn beri til.

Skipulagsstofnun telur mikilvægt að ráðist verði í endurheimt votlendis og skóglendis ef af framkvæmdunum verður og taka verði fram í framkvæmdaleyfi hvar verði ráðist í þá endurheimt í samráði við Umhverfisstofnun, Skógræktina, sveitarfélagið og landeigendur. Framkvæmdin snertir Skógræktina beint enda á stofnunin jörðina Haukadal frá því að danski athafnamaðurinn Kristian Kirk gaf henni jörðina árið 1940 til að þar mætti endurheimta landgæði og rækta skóg.

Skýrsla Skipulagsstofnunar tíundar ýmis önnur áhrif sem fyrirhuguð virkjun myndi hafa á umhverfi og náttúru, svo sem á fuglalíf sem sé lítt rannsakað á svæðinu. Til dæmis sé hugsanlegt að þarna sé straumandarvarp en straumöndin er á válista og auk þess ábyrgðartegund enda Ísland eina landið þar sem tegundin verpur í Evrópu.

Skýrsluna má finna á vef Skipulagsstofnunar auk matsskýrslu og fleiri gagna.

Texti: Pétur Halldórsson