Forhot-rannsóknasvæðið í Varmadal við Hveragerði. Ljósmynd: Edda Sigurdís Oddsdóttir
Forhot-rannsóknasvæðið í Varmadal við Hveragerði. Ljósmynd: Edda Sigurdís Oddsdóttir

Ný grein úr verkefninu ForHot birtist nú í desember í tímaritinu Soil Biology and Biochemistry um áhrif hækkandi jarðvegshita á bakteríusamfélög. Fyrsti höfundur greinarinnar er James Weedon en meðal þátttakenda í rannsókninni voru þau Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ og Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar.

Greinin ber enska titilinn Community adaptation to temperature explains abrupt soil bacterial community shift along a geothermal gradient on Iceland. Rannsóknin var gerð á breytingum á samfélögum jarðvegsbaktería á tveimur svæðum á Reykjum í Ölfusi, annars vegar í greniskógi og hins vegar í graslendi, en á báðum svæðunum hafði jarðvegur hitnað í kjölfar jarðskjálftanna 2008. Mismikil hitnun gerði kleift að safna jarðvegssýnum á misheitum svæðum, frá eðlilegu hitastigi (meðalárshiti 5,2°C) upp í allt að +40°C heitan jarðveg. Viðbrögð bakteríusamfélaga og aðlögun þeirra að hækkandi hita voru rannsökuð með DNA-aðferðum.

Viðbrögð jarðvegsbaktería við hækkandi hita geta haft áhrif á næringarefnahringrás jarðvegs og þannig á losun kolefnis úr jarðvegi. Þar sem kolefnisforði jarðvegs er mikill, geta þau áhrif orðið mikil og haft talsverða þýðingu.

Þrátt fyrir mismunandi samsett bakteríusamfélög á svæðunum tveimur var aðlögun þeirra svipuð; litlar breytingar urðu á þeim þar til hitinn hafði hækkað um 6°C til 9°C en þá breyttust samfélög bakteríanna á báðum svæðunum á svipaðan hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar benda eindregið til þess að jarðvegshiti spili stórt hlutverk í breytingum á jarðvegsbakteríusamfélögum.

Texti: Edda S. Oddsdóttir
Ritvinnsla: Pétur Halldórsson