Opna úr bókinni Skógarnytjum
Opna úr bókinni Skógarnytjum

Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður hefur endurútgefið bók sína, Skógarnytjar, á rafrænu formi og er hún því aðgengileg öllum sem fræðast vilja um nytjar á viði úr íslenskum trjám.

Bókin kom út á pappír í tengslum við Hönnunarmars á síðasta ári og seldist fljótt upp. Með samnefndu verkefni, „Skógarnytjum“ er lagður grunnur að nýrri viðarmenningu sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu nýrrar auðlindar. Jafnframt er miðlað upplýsingum um framtíðarmöguleika. Verkefnið stendur á grunni tveggja ára rannsóknar- og þróunarvinnu sem unnin var í samstarfi við alla helstu aðila í skógrækt á Íslandi.

Á Hönnunarmars 2019 kynnti Björn Steinar til sögunnar húsgagnalínu unna úr íslenskum viði, sem ætlað var að brúa bil á milli skógræktar og annars iðnaðar á landsvísu. Ný og uppfærð lína átti að vera til sýnis á hefðbundnum tíma á Hönnunarmars þetta árið en veirufárið setti strik í reikninginn og því var hátíðinni frestað. Sýningin verður opnuð 24. júní við Bríetartún 13 í Reykjavík.

Skógarnytjar - rafræn útgáfa:

Texti: Pétur Halldórsson