Frá 1994 hefur Skógrækt ríkisins gert tilraunir með frærækt á birki í gróðurhúsum. Upphaflega voru fallegustu birkitré valin í nokkrum skóglendum, greinar af þeim græddar á ungar birkiplöntur í pottum og þær ræktaðar í gróðurhúsum til að örva blómgun og fræmyndun. Aðeins einu sinni varð þó verulegt fræár á Bæjarstaðarúrvalinu og nokkrum sinnum minni uppskera. Aldrei kom teljandi fræ á hinar fræmæðurnar (Fnjóskadalsúrval, Mývatnssveitarúrval og Hallormsstaðarúrval).

Í fyrra (2007) var kominn tími á að endurnýja fræmæðurnar, enda orðnar úr sér vaxnar í pottunum. Finnar hafa stundað birkifrærækt í gróðurhúsum mun lengur en við og þeirra reynsla er sú að plöntur vaxnaru upp af fræi bera mun meira fræ en ágræddar plöntur. Því var ákveðið að nýju fræmæðurnar skyldu vera venjulegar plöntur. Þær voru valdar í ungri afkvæmatilraun á Tumastöðum í Fljótshlíð, grafnar upp, settar í potta og látnatr vaxa í gróðurhúsi í Vaglaskógi. Aðeins Bæjarstaðarúrvalið var tekið, tvær plöntur úr hverjum afkvæmahópi.

Sáð var til afkvæmatilraunarinnar vorið 2003 og voru plönturnar því 4 ára frá sáningu þegar þær voru valdar. Þær lifðu allar flutninginn af og vorið 2008 var strax talsverð blómgun á mörgum plantnanna. Það verður því svolítil fræuppskera strax. Vonir standa til að þessi nýji gróðurhúsfrægarður verði uppskerumeiri en þekkst hefur hingað til hjá birki á Íslandi. Á meðfylgjandi mynd sjást blóm birkisins í gróðurhúsinu 8. maí s.l.